Hin stórkostlega Púglía

Syðst á Ítalíu er að finna villt og heillandi hérað þar sem enn má finna hina gömlu ítölsku menningu ómengaða af fjöldatúrisma og jafnvel á köflum nútímanum. Púglía er fallegt og heillandi hérað þar sem fagrar strendur, gamlar borgir og stórfenglegur matur eru við hvert fótmál og verðlag ætti ekki að fæla neinn frá.

Lengi vel var Púglía fjarlægt svæði fyrir íslenska ferðamenn en með fjölgun beinna fluga til Ítalíu yfir sumarið er ferðalag þangað orðið að raunhæfum kosti þegar að sumarfríið er skipulagt. Frá Róm er til að mynda einungis um fjögurra klukkustunda akstur til Púglía og ekki spillir fyrir að eftir fyrsta kaflann á hraðbrautinni á milli Róm og Napólí er sú ökuleið í gegnum hinar grænu og ægifögru sveitir Kampaníu þar sem er ekki síður tilvalið að staldra við og njóta. Á miðjum skaganum er haldið yfir Appenína-fjöllin og þegar yfir heiðina er komið blasa hinir gulu akrar og dimmgrænu ólífuskógar Púglíu við ásamt sægrænu Adríahafinu.

Fyrir þá sem vilja sól og sumar er hægt að velja úr milli fallegra bæja jafnt við Adríahaf sem Miðjarðarhafið og jafnvel hægt að ná sundspretti í þeim báðum á sama degi með smá akstri. Það er til dæmis tilvalið að hafa bækistöð í nágrenni Monopoli rétt suður af borginni Bari. Þetta er sjávarþorp og alls staðar í kring í litlu þorpunum eða „Contrade“ sem teygja sig upp í hæðirnar er hægt að finna fjölbreytta gistimöguleika.

Púglía er það svæði Ítalíu þar sem hvað mest er framleitt af bæði vínum og ólífuolíu. Olían er í hæsta gæðaflokki þegar hún er góð og víngerð hefur verið í mikilli gæðasókn. Meginþrúga héraðsins er Primitivo, dökk og krydduð og minnir um margt á hina kalifornísku Zinfandel (jafnvel eru til kenningar um að hún sé hinn erfðafræðilegi forfaðir hennar). Maturinn er einfaldur en einstaklega góður. Ferskur fiskur úr sjónum, tómatar, lambakjöt og kryddjurtir. Einfaldar samsetningar og mikið bragð.

Til að fá nasaþef af hinnu sönnu Suður-Ítalíu verður að heimsækja borgina Bari, ganga um Bari Vecchia, gömlu miðborgina og skoða dómkirkju heilags Nikulásar. Reynið líka að fina Osteria Le Arpie (Vico Arco del Carmine, 2) agnarsmáan, hræbillegan veitingastað sem býður gestum upp á guðdómlegt heimagert pasta eða þá Perbacco, annar pínkulítill veitingastaður með nútímalegum, staðbundnum mat og frábæru úrvali Púglía-vína.

Ef þið eruð á fartinni síðdegis eða snemma kvölds og viljið magnaðan fordrykk verðið þið að ganga borgarvegginn frá Piazza del Ferrarese að dómkirkjunni og leita að enn einum smástaðnum, Il Caffé Sotto il Mare og biðja barþjóninn Luigi um að setja saman fyrir ykkur drykk. Hann þarf bara að vita hvort að þið viljið áfengan, smá áfengan eða óáfengan drykk og hann sér um ykkur. Og já, biðjið um smá snarl líka!

Púglía er stórt hérað sem býður upp á fjölbreytta upplifun og því um að gera að taka sér tíma í dagsferðir til að sjá sem mest af því sem svæðið hefur upp á að bjóða. Gamli kastallinn í Casteldelmonte verður auðvitað að vera á dagskrá og þar í grennd eru nokkrir frábærir veitingastaðir, trattoríurnar l‘Angolo di Vino og Mezzapagnotta í Ruvo di Puglia og svo auðvitað trattoria sem heimamenn segja vera einhverja þá bestu í heimi, Antichi Sapori í Montegrosso di Andria. Þar er hins vegar algjörlega nauðsynlegt að bóka borð með smá fyrirvara.

Annar staður sem getur með rétti gert tilkall til þess að vera sá besti í Púglía er Masseria Spina í Monopoli en kokkurinn Angelo Sabatelli fékk nýlega fyrstu Michelin-stjörnuna sína.

 

Í miðborg Monopoli er líka Vino I Pani – vín og brauð – yndisleg osteria þar sem boðið er upp á frábæran, ódýran mat og góð vín í afslöppuðu umhverfi. Ekki langt frá er Il Punto Cardinale þar sem þau Antonella og Sergio gleðja gesti með pizzunum sínum og grilluðu kjöti.

Annar nálægur strandbær sem nauðsynlegt er að heimsækja er Polignano þó ekki væri nema út af lítilli og grýttri en stórkostlegri ströndinni í klettavík þar sem ungmenni bæjarins leika sér að því að stökkva af klettunum niður í dimmbláan sjóinn. Rétt utan við þorpið er veitingahúsið Locanda dell’Abbazia sem býður upp á einhvern ferskasta og besta fisk héraðsins og Trattoria Dei Mulini sem býður upp á staðbundin og hefðbundin mat í hæsta gæðaflokki.

Þorp sem flestir er koma til Púglía heimsækja er Alberobello þar sem flest húsin eru í trulli-stíl. Alberobello er á heimsminjaskrá UNESCO og vissulega mikil upplifun að rölta þar um. Þetta er hins vegar líka einn af fáum stöðum þar sem ferðamenn safnast saman í miklum mæli. Ekki borða í Alberobello.

Ef leiðin liggur alla leið suður til Brindisi er nauðsynlegt að panta borð á Pantagruele, klassa trattoria nefnd eftir einum af söguhetjum Rabelais, þar sem hægt er fá grillaðan fisk og kjöt.

Annað sem matgæðingar verða að reyna í Púglía er að snæða hjá slátraranum. Margir slátrarar elda líka úr kjötborðinu fyrir þá sem það kjósa og eru má með skilti í glugganum þar sem á stendur Fornello Pronto. Yfirleitt eru nokkur borð fyrir gesti og slátrarinn grillar það sem beðið er um og rukkar hlægilega lítið fyir máltíðina. Þetta verður ekki einfaldara – eða meira heillandi. Margir góðir slátrarar með þessa þjónustu eru t.d. í Cisternino.

 

 

 

 

 

 

 

Deila.