Grænkál (kale) með hvítlauk

Grænkál hefur verið fáanlegt eins lengi og maður man eftir sér en það er ekki fyrr en að „kale“ komst í umræðuna sem ofurfæða eða superfood sem að margir fóru að gefa því gaum. Kale er auðvitað sami orðstofn og kál og hefur verið ræktað í norðurhluta Evrópu að minnsta kosti frá því á miðöldum enda harðger planta sem hentar vel á norðlægum slóðum.

Það er um að gera að nota grænkálið sem meðlæti – til dæmis með grillmatnum. Það má auðvitað nota í salat en best er það ef við gefum okkur nokkrar mínútur í eldun og bætum hvítlauk við.

Það er gott að byrja á því að dýfa grænkálinu örsnöggt í sjóðandi vatn og síðan strax í skál með köldu vatni. Þerrið.

Hitið ólífuolíu á pönnu og mýkið saxaðan hvítlauk á miðlungs hita í um eina mínútu. Það er best að nota mikið, mikið af hvítlauk.

Bætið kálinu út á og veltið um þar til að það er orðið mjúkt. Athugið að það skreppur verulega saman við eldun og því er ráðlegt að vera með nóg af grænkáli til að byrja með. Það þarf alveg tvo poka fyrir fjóra.

Deila.