Allegrini Palazzo della Torre 2012

IMG_1468Vínhús Allegrini-fjölskyldunnar hefur látið lítið fyrir sér fara á ´Íslandi síðustu árin eftir að hafa verið fáanleg hér um nokkurra ára skeið fyrir einum og hálfum áratug eða svo. Það var missir af þeim enda eru þetta með betri vínunum frá Valpolicella-svæðinu. Allegrini hefur verið viðloðandi vínrækt í Valpolicella frá sautjándu öld og vínin einkennast af frábæru jafnvægi á milli hins hefðbundna og hins nútímalega og framsækna.

Palazzo delle Torre er einnar ekru „chateau“-vín af ekrum í kringum setrið Villa della Torre. Setrið er á Valpolicella-svæðinu en vínið er þó flokkað sem „IGT“ þar sem að auk Valpolicella-þrúgnanna Corvina og Rondinella er einnig að finna smávegis af Sangiovese. Hluti af þrúgunum er líka þurrkaður – þetta er það sem stundum er kallað ripasso – en sá stíll verður þó ekki yfirþyrmandi eins og stundum vill verða.

Liturinn er dökkur, dökkfjólublár og í nefinu eru þurrkaðir ávextir, allt að því út í rúsínur en líka ferskari plómu og kirsuberjaávöxtur, töluvert kryddað, kaffi, í munni þykkur, nokkuð sætur ávaxtamassi, sultuð sólber og plómur en líka flott sýra sem brýtur vínið upp, léttir á því og gefur því frábæra lengd.

90%

2.990 krónur. Frábær kaup og frábært verð fyrir þetta klassavín. 

  • 9
Deila.