Þorskurinn okkar er óumdeilanlega einhver besti matfiskur í heimi og hefur enda verið eftirsóttur víða um heim um aldabil. Við Íslendingar höfum hins vegar ekki kunnað að meta hann sem skyldi fyrr en í seinni tíð og nú er loksins hægt að ganga út frá því sem vísu að fá fínan þorsk í flestum fiskborðum. Best er auðvitað að nota hnakkastykkin, þykkasta hluta flaksins.
Það eru mikil spænsk áhrif í þessari uppskrift og það er hægt að nota bæði ferskan þorsk eða góða, vel útvatnaðan saltfisk. Chorizo pulsur er hægt að fá í flestum stórmörkuðum, yfirleitt bæði niðursneiddar sem heilar. Við mælum með því að nota heila pylsu í þennan rétt.
- 800 g þorskur (eða saltfiskur)
- 1 dós Cannellini baunir
- 1 Chorizo-pylsa (ca 140 grömm), skorin í litla bita
- 1 dós tómatar
- 1 laukur, saxaður
- 3-4 hvítlauksgeirar, saxaðir
- 2 rósmarínstönglar
Byrjið á því að hita olíu á pönnu. Mýkið laukinn í 2-3 mínútur á miðlungshita og bætið þá hvítlauk, niðurskorinni Chorizo og rósmarínstönglunum á pönnuna. Veltið áfram um á pönnunni þar til að pylsubitarnir fara að verða stökkir.
Næst er tómötum og baunum bætt út. Ef þið eigið hvítvínslögg er gott að láta smá skvettu af víni fylgja með. Leyfið öllu að malla í um fimm mínútur eða svo.
Skerið fiskinn í bita og setjið út á pönnuna. Eldið áfram undir loki í allt að fimm mínútur. Bragðið til með salti og pipar eins og þarf. Ef þið notið saltfisk er auðvitað óþarfi að salta. Það er líka gott að setja lúku af fínt söxuðum kryddjurtum saman við, t.d. basil eða flatlaufa steinselju.
Hér er auðvitað spænskt hvítvín við hæfi, t.d. Viena Sauvignon Blanc eða Pazo Cilleiro Albarino.