Matbar á Hverfisgötu er einn af mörgum nýjum veitingastöðum í Reykjavík og í þeim hópi sá sem hvað mesta athygli hefur notið. Þetta er ekki stór, eiginlega bara ótrúlegt þegar pælt er í því að tekist hafi að koma stað sem virkar þetta rúmur fyrir í þessu litla rými. Matbar er á horni Hverfisgötu og Smiðjustíg á sama reit og Canopy-hóteið. Húsið er hins vegar gamalt og þarna var til skamms tíma rekinn írskur pöbb sem nú hefur vikið fyrir suðrænari stemmningu en segja má að Matbar sæki margt bæði til Ítalíu og spænsku tapasbaranna.
Það er bjart yfir rýminu, stórir gluggar bæði í norður og vestur þannig að nær öll borð eru gluggaborð. Barinn er hálfhringur og setur sterkan svip á staðinn og rammar líka inn örlítið eldhúsið þar sem að maturinn er settur saman.
Konseptið er tiltölulega einfalt. Matseðillinn byggist upp á smáréttum sem að hægt er annað hvort að raða saman að vild eða að taka samsettan seðil með fimm réttum. Við höfum reynt bæði og það fer eiginlega eftir því hver stemmningin er hvort er betra. Samsetti seðillinn er ódýrari en að taka fimm rétti en með því að panta sjálfur ræður maður auðvitað ferðinni og getur tekið jafnmarga eða jafnfáa rétti og maður er í skapi fyrir og nákvæmlega þá rétti sem að maður vill. Osta og áleggsplatti (af hverju eigum við ekki betra samheiti yfir skinku, pylsur og annað í þeim dúr en álegg? charcuterie hljómar svo miklu betur) er frábær byrjun, ítalskar kjötvörur og íslenskir og erlendir ostar, sem eru hver öðrum betri.
Bleikja og kramdar kartöflur er líka frábær samsetning og ferskur mozzarellaosturinn með litlum gulum og rauðum tómötum og balsamik- og basildressingu hefur reynst traustur kostur. Grísakinnar með suðrænni BBQ-sósu er eins konar pulled pork með BBQ, vel þess virði að panta. Það er svo eiginlega möst að taka kálfinn, virkilega góður og meyr, með kryddsmjöri og timjan, þar eiga krömdu kartöflurnar líka vel við.
Matbar er staður til að detta inn á með góðum vinum, með það í huga að fá sér eitt lítið vínglas og einn lítinn tapasrétt og átta sig síðan á því að maður endaði á að fé sér heila, góða máltíð. Vínlistinn er athyglisverður, þarna er mikil áhersla á Prosecco en líka hægt að fá mjög frambærileg hvítvín og rauðvín, Vermentino klikkar til dæmis ekki.