Sumarbjórs umfjöllun: Borg/Cigar City Aycayia IPA

Síðasta sumar fengu bruggmeistarar Borgar góða heimsókn. Wayne Wambles yfirbruggari Cigar City Brewing mætti á klakann og þeir félagar brugguðu afbragðs IPA. Núna ári seinna er þessi bjór mættur aftur, á hárréttum tíma í sumarbyrjun.

Cigar City Brewing hafa lengi verið meðal fremstu brugghúsa í heimi og því var þetta ansi áhugavert samvinnuverkefni. Verkefnið tók marga mánuði og ber bjórinn þess merki. Það eru mikil gleðitíðindi að þessi bjór fær að fara í aðra umferð og hafmeyjan Aycayia heillar á ný. Þetta er frábær bjór, örlítið gruggugur í glasi, með mikilli lykt af suðræðnum ávöxtum. Á tungu er hann frekar þurr, talsvert beiskur en með mikla ávaxtatóna.

Aftur ber að hrósa Borg einnig fyrir umbúðir. Borg eru að færa sig meira inn í nútímann með því að setja mjög humlaða bjóra í álumbúðir sem verndar bjórinn, er umhverfisvænn kostur og kemur í veg fyrir utanaðkomandi breytur. Auk þess eru umbúðirnar einstaklega fallegar og teikning Garðars Péturssonar sómar sér vel.

Samkvæmt Borg eru birgðir takmarkaðar.

Hið íslenska bjór sumar fer vel af stað og ef til vill er hér besti bjór sumarsins.

Deila.