Bláberja haust frá Ölvisholti

Ölvisholt brugghús fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir og í tilefni þess kemur haust bjór frá þeim í viðhafnarútgáfu. Ölvisholt X er samvinnu brugg allra bruggara Ölvisholts frá stofnun brugghússins. Valgeir Valgeirsson og Árni Long starfa nú hjá Borg Brugghús og Elvar Þrastarsson er að koma á koppinn nýju brugghúsi í Hveragerði undir nafninu Ölverk en Ölverk hafa slegið í gegn sem veitingastaður í sumar fyrir frábærar pizzur.

Saman komu þeir ásamt Ástu Ósk Hlöðversdóttir núverandi bruggmeistara og brugguðu saman þurrhumlaðan bláberja hveitibjór að belgískri fyrirmynd. Ekkert var til sparað og fóru alls 200 kg af bláberjum í bjórinn. Útkoman er 6.4% hveitibjór, fjólublár að lit með miklum bláberjakeim með örlitlum tónum af kóríander og appelsínum. Talsvert þurr en þó í mýkri kantinum. Bjór sem áhugaverður er að smakka og gaman að sjá Ölvisholt fara út fyrir rammann í árstíðabundnum bjór þetta haustið.

Deila.