Hurðaskellir mætir með látum

Í dag hefst sala á jólabjór á Íslandi og því ekki úr vegi að byrja á umfjöllun jólabjóra. Fyrstur í röðinni er nýr bjór frá Borg Brugghús, Hurðaskellir Imperial Porter. Borg hafa haft þann vana á að koma ávallt með einn nýjan jólabjór í bland við eldri bjóra og í ár virðist metnaður vera í hámarki.

Hurðaskellir er mikið gæðabrugg. Hann er þroskaður á bandarískum „rye viskí“ tunnum sem gefur honum mikinn keim af vanillu, kókos, þurrkuðum ávöxtum og sætu. Hurðaskellir býr yfir talsverðri mýkt og virðist allt vera í fullkomnu jafnvægi. Það má setja þennan bjór í flokk með því besta frá Borg Brugghús og getur hæglega verið einn besti tunnuþroskaði íslenski bjór sem bruggaður hefur verið hérlendis.

Hurðaskellir fær full meðmæli frá Vínotek og mælum við með að hamstra þennan bjór þar sem upplag er takmarkað.

 

Deila.