10 Brugghús sem þú verður að kynnast á Annual Beer Festival 2018 – Fyrri hluti

The Annual Beer Festival verður haldin í 7. skipti í lok febrúar. Þetta er frábær hátíð sem þekkist í daglegu tali sem Kex Bjórhátíðin. Í upphafi var hún haldin til að fagna afmæli bjórsins en undanfarin ár hefur hún stækkað og dafnað og í ár má segja að hún sé líklegast ein af bestu bjórhátíðum heims. Þegar rennt er yfir brugghúsin að þá eru erlendu brugghúsin þau allra heitustu í dag og þau innlendu aldrei verið fleiri. Vínotek hefur ákveðið að taka saman áhugaverðustu brugghúsin. Gæðin eru gríðarleg og því erfitt að velja á milli. Hér að neðan er fyrri hluti yfirferðar yfir 10 áhugaverðustu brugghúsin.

 

Cloudwater Brewing (Manchester, UK)

Cloudwater hafa verið fremstir meðal jafningja þegar kemur að „hazy“ IPA bjórum. Þeir hafa verið gríðarlega eftirsóttir bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum og er líklegast eitt allra heitasta brugghúsið í Bretlandi. Cloudwater er stofnað af Paul Jones yfirbruggara árið 2014. Fullkomnunarárátta einkennir allt sem Paul Jones gerir og að hans sögn eru bestu bjórar Cloudwater undir því sem hann vill að þeir séu. Það er enn mikið rými fyrir framfarir. Það er spennandi að sjá hvaða bjóra þeir koma með en eitt er víst, það verður röð allan tímann.

 

Alefarm (Køge, DK)

Alefarm eru að koma í 3. skiptið á þessa hátíð. Þetta er lítið brugghús frá Danmörku sem sérhæfa sig í súrum bjórum, saison og „hazy“ IPA. Þetta brugghús er sífellt undir radarnum en á hverri hátíð á fætur annarri erlendis eru þeir gríðarlega vinsælir og sameiginlegt álit allra að hér eru gríðarlega gott brugghús á ferð. Á bakvið Alefarm er einn mesti öðlingurinn sem Vínotek hefur hitt í bransanum, Andreas Skytt Larsen. Hann hefur skýrar hugmyndir um hvað Alefarm stendur fyrir og gerir ákaflega vandaða bjóra. Það kæḿi ekki á óvart að Alefarm verði með betri bjóra hátíðarinnar þegar upp er staðið.

Þess má geta að Good Beer Hunting fylgdi Alefarm eftir í kringum CBC hátíðina í Boston í haust. Ákaflega fræðandi grein sem má nálgast hér.

 

Malbygg (Reykjavík, Ísland)

Það hefur ekki verið neitt leyndarmál að Járn og Gler hafa í talsverðan tíma verið með brugghús í pípunum. Þeir hafa í mörg ár flutt inn afbragsðbjóra og líklegast hefur enginn innflytjandi á Íslandi lagt eins mikið til íslenskrar bjórmenningar og Járn og Gler. Hverjum hefði t.d. grunað fyrir nokkrum árum að Founders KBS stæði í hillum ÁTVR árið 2017?

Það er fjöldinn allur af nýjum bruggsmiðjum að koma upp hér á landi sem allar eiga það sameiginlegt að vera stofnaðar af bjóráhugamönnum sem er kærkomin nýjung og færir okkur nær því sem hefur verið að gerast í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum. Malbygg eru hugsanlega fremstir meðal jafningja.

Miðað við þær prufur sem Vínotek hefur komist yfir að þá munu þeir eflaust slá í gegn á hátíðinni.

 

Lamplighter Brewing (Cambridge, MA, USA)

Þrátt fyrir að Trillium sé eflaust stærsta nafnið í Boston að þá má enginn vanmeta Lamplighter sem er staðsett hinum megin við Charles ána. Nýlegt brugghús stofnað af eldmóði af parinu AC Jones og Cayla Marvil sem fluttu til Boston frá Vermont. Þau fundu innblástur í bruggmenningunni í Vermont og ákváðu að stofna brugghús í Cambridge. Þar brugga þau áfram undir „New England“ áhrifum, gera skýjaða IPA bjóra og frábæra saison bjóra einnig.

Vínotek mælir einnig með að heimsækja brugghúsið þegar farið er til Boston en „taproomið“ þeirra er eitt það allra fallegasta þar um slóðir.

Það hefur mikið umtal verið í kringum þetta brugghús í vetur og IPA bjórar frá þeim mjög eftirsóttir.

 

The Veil (Richmond, VA, USA)

Líklegast eitt af allra heitustu brugghúsum Bandaríkjanna í dag. Stofnað 2016 og hefur á skömmum tíma orðið það allra eftirsóttasta þegar kemur að skýjuðum IPA bjórum.

Matt Tarpey ræður ríkjum þar og er aðalbruggari og meðeigandi brugghúsins. Hann hafði áður verið að brugga um víðan völl, m.a. hjá John Kimmich hjá hinu margróðama brugghúsi Alchemist í Vermont. Hann hafði einnig kynnst súrum bjórum í Belgíu í gegnum vinskap Dimi Van Roy eiganda Cantillon. Hann var svo heppinn að Van Roy bauð honum til Belgíu til að fylgjast með bruggun á lambic bjór. Þaðan lá leiðin aftur til Alchemist þar sem hann bruggaði undir liðstjórn John Kimmich enn á ný. Þar kynntist hann Shaun Hill, eiganda Hill Farmstead sem er að mörgum talið besta brugghús í heimi. Shaun Hill sýndi honum hvernig hann bruggaði bjór og var hann um tíma aðstoðarmaður Shaun Hill í brugghúsinu.

Hjá Hill Farmstead kynntist hann Dustin Durrance sem seinni átti eftir að vera meðeigandi hans að The Veil. Durrance var mikill aðdáandi Hill Farmstead og tíður gestur í brugghúsinu. Durrance sannfærði Tarpey að tími væri kominn á að opna eigið brugghús og eftir talsvert tal þeirra á milli var áhættan tekin og The Veil varð að veruleika árið 2016. Það má segja að röð tilviljana varð til þess að The Veil var stofnað.

Á CBC í Boston í haust var stanslaus röð á básinn hjá The Veil og líklegast þurfti að bíða eftir örlitlu smakki í yfir klukkutíma frá þeim. Það verður fróðlegt að sjá hvað þeir munu bjóða uppá en það verður að öllum líkindum eitthvað magnað.

Deila.