10 Brugghús sem þú verður að kynnast á Annual Beer Festival 2018 – Seinni hluti

The Annual Beer Festival verður haldin í 7. skipti í lok febrúar. Þetta er frábær hátíð sem þekkist í daglegu tali sem Kex Bjórhátíðin. Fyrir nokkru tókum við saman helstu brugghús hátíðarinnar. Hér er seinni hluti.

Bokkereyder (Hasselt, Belgía)

Þrátt fyrir að á bak við nafnið sé aðeins einn maður að þá er þetta líklega stærsta nafnið á hátíðinni. Saga Bokkereyder er með ólíkindum og í dag er erfitt að tala um belgíska lambic bjóra án þess að minnast á Bokkereyder.

Á afar skömmum tíma varð Raf Soyvereyns einn sá allra heitasti í bjórheiminum en árið 2016 var hann nefndur sem besta brugghús í heimi af Ratebeer.com og eftir það varð hann allra eftirsóttasti bruggari heims. Í grunninn er hann samt ekki bruggari heldur blandari. Bokkereyder blandar mismunandi lambic bjórum og árgöngum en það má segja að sú list sé á barmi þess að deyja út en einungis 3 lambic blandarar hafi opnað dyr sínar síðan 1997. Líklegast er það vegna þess að fjöldi lambic bruggúsa í Belgíu er ekki mikill og bruggferillinn tekur nokkur ár.

Það er eiginlega ótrúlegt að Bokkereyder sé á bjórhátíð á Íslandi. Þetta er einn eftirsóttasti bruggari heims í dag og nánast ómögulegt að komast yfir Bokkereyder flöskur. Á CBC bjórhátíðinni í Boston síðasta haust sló hann rækilega í gegn, kláraði bjórinn á fyrstu mínutunum en engu að síður stóð fólk allan tímann vegna þess að það var orðrómur um að hann myndi kannski opna nokkrar flöskur til viðbótar á einhverjum tímapunkti.

Þetta er eitthvað sem enginn lambic eða súrbjórs unnandi má láta fram hjá sér fara!

 

Cycle Brewing (St. Petersburg, Florída)

Cycle Brewing er tiltölulega lítið brugghús í St. Petersburg í Flórída. Undanfarin ár hafa þeir orðið gríðarlega eftirsóttir og þá aðallega vegna tunnu þroskaðra imperial stouta. Reyndar eru vinsældirnar svo miklar að þeir voru nýlega kosnir 5. besta brugghús í heimi af Ratebeer.com.

Sérhæfingin þeirra eru stórir og tunnuþroskaðir imperial stoutar en þó gera þeir fína IPA bjóra. Eftirspurnin er mikil og flöskur frá þeim eru seldar fyrir svimandi háar upphæðir á svörtum mörkuðum vestanhafs. Þeir hafa verið fastagestir á helstu bjórhátíðum heims og alltaf hafa myndast miklar raðir hjá þeim.

 

Black Project (Denver, Colorado)

Black Project frá Denver er að okkar mati eitt áhugaverðasta brugghús heims um þessar mundir. Stofnað í upphafi sem Former Future Brewing af hjónunum James og Sarah Howat.

Áhugi þeirra lá fyrst og fremst í súrum bjórum og þau vildu aðskilja það frá Former Future. Black Project fæddist árið 2014 og mikið er horft til belgískra hefða með súrbjóra. Mikið er gert með nánasta umhverfi hvað varðar hráefni og gerjun.

Notast er við hefðbundnar belgískar aðferðir eins og „coolship“. Í grunninn er það stór en grunnur geymur sem þekur stórt svæði af húsi. Þetta er náttúruleg aðferð við að kæla bjór. Þegar bjórinn kólnar er hann opinn fyrir nánasta umhverfi og á tunnum mun hann gerjast með gerlum úr náttúrulegu umhverfi brugghúsins. Í dag er Black Project líklegast heitasta súrbjóra brugghúsið í Bandaríkjunum.

 

Other Half (Brooklyn, New York)

Það þarf varla að kynna Other Half Brewing frá Brooklyn í New York. Þeir slóu rækilega í gegn á bjórhátíðinni í fyrra og hafa núna um árabil verið eitt allra besta brugghús Bandaríkjanna þegar kemur að IPA bjórum.

Stofnað 2014 af Samuel Richardson og Matt Monahan. Matt hafði starfað sem kokkur í New York en Samuel var bruggari á vesturströnd Bandaríkjanna en flutti til New York til að gerast bruggari Greenpoint Brewing í Brooklyn. Matt var mikill aðdáandi Greenpoint Brewing og þegar Matt fór að spyrjast fyrir um eigið bruggkerfi fóru hjólin að snúast hjá Samuel og Matt. Þeir stofnuðu saman Other Half og fengu þriðja aðilann, Andrew Burman, til liðs við sig.

Þeir eru í lítilli iðnaðargötu í Carrold Gardens undir Brooklyn-Queens Expressway og um nánast hverja helgi er röð í brugghúsið. Þeir fagna 4. aldursárinu um þessar mundir og það verður spennandi að fylgjast með hvað þeir koma með á hátíðina.

Eitt er þó víst að samvinnu brugg Other Half og Kex Brewing verður á hátíðinni en það verður afar spennandi að smakka hvað kom út úr því samstarfi. Íslensk hrútaber mættu bandaríksum hindberjum í súrbjór sem verður afar skemmtilegt að smakka.

Civil Society (Jupiter, Florida)

Mjög ungt fjölskyldu brugghús frá Jupiter í Suður Flórída sem hefur skotist ansi hratt upp á stjórnuhimininn á þeim tveimur árum sem þeir hafa verið starfræktir. Þeir sérhæfa sig í þeim stjarnfræðilega vinsæla stíl „New England IPA“ og eru afar eftirsóttir.

Tímaritið Bon Appetit ritaði á dögunum að Civil Society væri eitt allra besta brugghús Bandaríkjanna þegar kemur að þeim stíl og nefnd Hill Farmstead og Trillium Brewing í sömu andrá sem allra bestu brugghús Bandaríkjanna þegar kemur að gruggugum og stórkostlega góðum „New England IPA“ bjórum.

Þess má geta að þessi samantekt er engan veginn tæmandi. Bjórhátíðin í ár skipar sér á bekk allra bestu bjórhátíðum heims. Erfitt var að fjalla ekki sérstaklega um de Garde frá Oregon, Voodoo frá Pennsylvaníu, J Wakefield frá Flórida og Omnipollo frá Svíþjóð en allt eru þetta ein bestu brugghús heims. Það verður einnig spennandi að kynnast Ör Brugghúsi, Ölverki og RVK Brewing þegar kemur að íslenskum brugghúsum.

Þess má einnig geta að það verður mikið um viðburði í kringum hátíðina. Þegar þetta er skrifað er nýbúið að birta dagskrána fyrir Mikkeller & Friends á Hverfisgötu 12. Hún er eftirfarandi og má segja að hún sé algjörlega í heimsklassa!

Miðvikudagur 21. febrúar: The Veil Tap Takeover

Fimmtudagur 22. febrúar: Surly Brewing Tap Takeover

Föstudagur 23. febrúar: Lamplighter Tap Takeover og sérvaldar flöskur frá Black Project

Laugardagur 24. febrúar. Mikkeller og Voodoo. Mikkel Borg Bjergsø stofnandi og eigandi Mikkeller verður á staðnum til að spjalla við gesti.

 

 

 

 

Deila.