Sesamgrís

Kínversk matargerð hefur öðlast sitt eigið líf vestan hafs og þar hefur þróast afbrigði hennar sem blandar saman þessum tveimur menningarheimum og er í raun orðin að því sem margir tengja við „kínverskan“ mat. Þessi uppskrift er í þeim stíl. Hér er notað grísakjöt en það má allt eins nota kjúklingakjöt.

  • 500 g grísakjöt í bitum
  • 1 dl akasíuhunang
  • 1 dl mild sojasósa
  • 1 dl vatn
  • 4-5 hvítlauksrif, pressuð
  • 3 sm engiferrót, rifin
  • 1 tsk chiliflögur
  • 2 msk Maizena
  • 2 vænar msk sesamfræ

Byrjið á því að þurrista sesamfræin á heitri pönnu þar til að þau taka að dökkna, án þess þó að brenna.Geymið.

Setjið vatn, soja, hunang, hvítlauk, engiferr, chiliflögur og maizena í skál og pískið vel saman.

Hitið olíu á pönnunni og brúnið kjötbitana. Hellið sósunni út á pönnunna og sjóðið hressilega í nokkrar mínútur þar til að sósan fer að þykkna. Lækkið hitann, hellið sesamfræjunum yfir, blandið saman og látið malla í um 10 mínútur.

Berið fram með hrísgrjónum og gufusoðnum gulrótum og brokkolí.

Með þessu hentar gott nýjaheimshvítvín best, t.d. Cono Sur Viognier.

Deila.