Steik og franskar með Béarnaise – „Steak Frites“

Líklega er ekki til það brasserie í Frakklandi sem ekki er með „steak frites“ á matseðlinum sínum og þá oftar en ekki með Béarnaise-sósu,  má segja að þetta sé einn af þjóðarréttum Frakka. Þetta er ein af þessum sígildu og fullkomnu samsetningum sem aldrei klikka – ef passað er upp á að hráefnin séu góð. Og það eru ekki bara Frakkar sem elska þessa samsetningu, um allan hinn vestræna heim hefur steikin með frönskum sinn fasta sess.

Fyrst þarf auðvitað að huga að kjötinu. Algengast er að bera fram Ribeye eða Entrecote með, stundum eru þær barðar með kjöthamri til að gera þær þynnri. Ef þú vilt gera hina fullkomnu Ribeye-steik skaltu lesa þetta hér.

Næst eru það frönsku kartöflurnar. Hver elskar ekki brakandi stökkar og nýsteiktar franskar kartöflur? Gleymdu þessum sem þú kaupir frosnar. EIna vitið er að gera sínar eigin franskar kartöflur og það er alveg hægt að gera franskar sem að geta keppt við þær á hvaða veitingahúsi sem er. Galdurinn er að láta þær liggja aðeins í vatni áður en þær eru steiktar og svo þarf að tvísteikja kartöflurnar. Nánari leiðbeiningar um hvernig maður gerir fullkomnar franskar finnur þú hér.

Og svo má ekki gleyma Béarnaise-sósunni þessar ótrúlegu sósu. Franska matargerðin byggir mikið á nokkrum grunnsósum. Ein þeirra er Hollandaise og má lesa um hana hér. Í raun er Béarnaise eins konar afsprengi af Hollandaise þar sem fáfnisgrasi (estragon) og ediki er bætt við. Fáfnisgras vex vel á Íslandi og ekki vitlaust að rækta það sjálfur. En Béarnaise-sósuna gerir maður auðvitað frá grunni. Engar pakkasósur eða essensar!! Leiðbeiningar um hvernig maður gerir ekta klassíska franska Béarnaise má finna hér.

Meira þarf ekki þótt auðvitað sé gott að hafa einfalt salat með. Eitthvað gott grænt salat og niðurskorna tómata ásamt ekta  og einfaldri franskri vinaigrette-salatsósu.

Ekki má heldur gleyma rauðvíninu. Á frönsku brasserie-veitingahúsi eru Cotes-du-Rhone vínin klassísk og ung Cotes-du-Rhone frábær með steikinni. E. Guigal gerir eitt hið besta eða þá Vidal-Fleury. Þið getið lesið nánar um þessa flottu framleiðendur hér. Svo er auðvitað hægt að velja uppáhalds Cabernet-vínið sitt eða gott spænskt Rioja eða Ribera del Duero.

 

Deila.