Vín ársins 2014

Það er hefð fyrir því svona í lok árs að miðlar líti yfir farinn veg og rifji upp það helsta sem gerst hefur á árinu. Við á Vínótekinu höfum haft þann sið frá upphafi að velja vín ársins um þetta leyti og einnig höfum við velt fyrir okkur hvaða vín sem við smökkuðum á árinu voru „bestu kaupin“ bæði rauð og hvít.

Þetta hefur aldrei verið auðvelt val enda ansi mörg góð vín sem hafa verið smökkuð – á árinu 2014 eru þau um 240 sem að við höfum tekið til umfjöllunar og all nokkur sem gætu sómað sér vel sem vín ársins, vín sem er spennandi, áhugavert, vel gert og á góðu verði miðað við gæði.

En ef við byrjum á að meta árið almennt þá má segja að þetta ár hafi að mörgu leyti tilheyrt Evrópu. Á undanförnum árum hafa vín frá fjarlægari slóðum, Suður-Afríku, Chile, Argentínu verið mjög áberandi og vinsæl þó að einstaka Evrópuríki eins og Ítalía hafi einnig verið í sókn. Þegar horft er yfir árið 2014 og þau vín sem þá komu inn þá hafa gömlu, rótgrónu víngerðarríkin verið að sækja verulega í sig veðrið á nýjan leik. Spænsk vín, hvít jafnt sem rauð, sem verulegur fengur er í hafa haldið áfram að streyma inn og það sama má segja um Ítalíu. Þetta er líka árið sem að við sáum fleiri spennandi vín frá Portúgal – því magnaða víngerðarlandi – en við munum eftir áður. Og þetta er líka árið sem að frönsk vín hófu stórsókn á ný inn á íslenska markaðinn.

Það hafa hreinlega streymt inn stórkostleg frönsk vín, spennandi frönsk vín og unaðsleg frönsk vín frá hinum ólíku sveitum Frakklands. Ekki síst hefur verið unun að fylgjast með því hvernig Languedoc í Suður-Frakklandi er að koma hrikalega sterkt inn.

Þegar að maður fór yfir hvítvín ársins voru tvö sem stóðu svolítið upp úr þegar maður horfir til bestu kaupanna. Bæði frönsk, bæði úr þrúgunni Sauvignon Blanc og þegar upp var staðið var enginn leið að gera upp á milli þeirra. Annað þeirra er hið yndislega Petit Bourgeois 2012  frá Henri Bourgeois í Loire og hitt er Dourthe No 1 2013 frá Bourdeaux. Að okkar mati bestu hvítvínskaupin árið 2014.

Í rauðvínunum voru nokkur mjög frambærileg spænsk vín sem koma fyllilega til greina. Í fyrsta lagi svakalega flott Rioja-vín – Crianzavínið Altos R. Í öðru lagi afskaplega spennandi vín úr sjaldgæfri þrúgu frá Andalúsíu sem heitir Finca Moncloa. Í þriðja lagi Tempranillo-vínið Museum Vina Crianza frá svæðinu Cigales, norðvestur af Madrid. Við verðum líka að nefna tvo Ítali, annars vegar Librandi Magni Megonio, magnað vín frá Kalibríu og hins vegar klassískan og glæsilegan Chianti Classico frá Fonterutoli – vínhús sem að maður gladdist mikið yfir að sjá aftur hér á markaðnum. Og svo voru það Frakkarnir. Við gætum nefnt mörg en það verður að nefna Chateau Brown-Lamartine 2009, þriðja vínið frá Chateau Cantenac Brown í Bordeaux. Sjálft Chateau-vínið 2010 er raunar eitt allra besta vínið í hillum vínbúðanna en Brown-Lamartine eru einhver bestu kaupin, ekki bara í Bordeaux-vínum heldur rauðvínum. En það vín sem að við ætlum að tilnefna sem bestu rauðvínskaupin 2014 kemur hins vegar frá Languedoc og heitir Domaine de la Baume Syrah la Jeunesse 2013, hrikalega flott vín á frábæru verði.

Og vínið sem að hlýtur viðurkenninguna vín ársins frá okkur að þessu sinni kemur einnig frá Languedoc. Það heitir Domaine de Villemajou 2012 og er eitt af vínhúsunum í eigu hins ótrúlega Gerard Bertrand. Ég hef nokkrum sinnum átt þess kost að smakka mig í gegnum megnið af vínum Bertrand. Og alltaf hefur þá þetta vín staðið svolítið upp úr. Ekki vegna þess að það sé „stærsta“ vínið eða það magnaðasta heldur hreinlega vegna þess hve það er gott, sjarmerandi og ótrúlega heillandi. Það var því mikið fagnaðarefni að fá Domaine de Villemajou sem viðbót í vínúrvalið en það endurspeglar allt það besta í víngerð Suður-Frakklands.

 

Deila.