Gnocchi

Nafnið „gnocchi“ er í raun samheiti á ítölsku yfir bollur af ýmsu tagi sem búnar eru til úr hveiti eða öðru sterkjuríku hráefni og síðan soðnar eða bakaðar. Stundum er uppistaðan spínat og ricotta-ostur (sá réttur er oft kallaður malafatta), í kringum Róm er semolina-gnocchi algengt en þekktast er líklega kartöflu- gnocchi.

Þetta er einn af þessum yndislegu ítölsku réttum sem kostar smá fyrirhöfn en er í raun ótrúlega einfaldur þegar maður er kominn upp á lagið. Í réttinn þarf um eitt kíló af kartöflum, hveiti og salt. Flóknara er það nú ekki.

Byrjið á því að flysja kartöflurnar, setjið þær í eldfast mót og bakið við 200 stiga hita í ofni þar til auðvelt er að stinga gaffli inn í kartöflurnar. Rífið kartöflurnar niður á rifjárni, setjið í stóra skál og hrærið saman við 5 6 dl af hveiti og hálfa teskeið af salti. Hveitimagnið getur verið eitthvað breytilegt. Mikilvægt er að ná sem mestum vökva úr kartöflunum og passa upp á að blandan verði ekki blaut.

Einnig er hægt að flysja kartöflurnar, skera í bita og sjóða og setja síðan í heitan ofn í nokkrar mínútur til að þerra þær. Í stað þess að rífa kartöflurnar niður má einnig keyra þær í gegnum matvinnsluvél í nokkrar sekúndur. Vilji menn grænt gnocchi er hægt að bæta um 150 g af spínati saman við í matvinnsluvélinni.

Þegar búið er að blanda hveiti og kartöflum vel saman og mynda deig er það tekið úr skálinni og hnoðað á vinnubekk. Stráið hveiti yfir borðið áður. Myndið síðan rúllur úr deiginu, þegar búið er að hnoða það vel saman. Skerið þær síðan niður í litla bita, um 2×2 cm að stærð hver. Gnocchi-bitana má einnig búa til með teskeið. Látið vatn sjóða í stórum potti og setjið gnocchi-bitana ofan í í nokkrum skömmtum. Sjóðið þá þar til þeir fljóta, sem tekur yfirleitt um tvær mínútur.

Með gnocchi er tilvalið að bera fram pestó og parmesanost, einnig er hægt að búa til sósu úr ferskum tómötum og kryddjurtum og parmesan. Steikið lauk og hvítlauk á pönnu í allmikilli ólívuolíu. Bætið við tómötum. Tómatarnir verða að vera vel rauðir, þroskaðir og bragðmiklir.. Finnið þið ekki slíka tómata er betra að nota tómata úr dós, heila eða hakkaða.

Látið krauma í 20 25 mínútur á meðalhita og maukið í matvinnsluvél að lokum. Saltið eftir smekk og bragðbætið með söxuðu fersku basil. Berið fram með gnocchi og rifnum parmesan.

Þá getur verið gott að hafa gráðostasósu með gnocchi. Hitið gráðaost og rjóma saman í potti þar til osturinn hefur bráðnað og sósan byrjar að þykkna. Um 100 g af t.d. Gorgonzola þarf á móti einum pela af rjóma. Kryddið með hvítum pipar og hugsanlega salti ef osturinn gefur ekki næga seltu.

Möguleikarnir eru óendanlegir.

 

Deila.