Alsace

Á norð­aust­ur­horni Frakk­lands á vinstri­bakka Rín­ar er að finna hér­að­ið Alsace eða Elsass. Þessi land­fræði­lega staða hef­ur mót­að hér­að­ið. Elsass var hluti af Þýska­landi á ár­un­um 1870-1918 og enn í dag tala marg­ir íbúa þess þýsku. Í sveit­um eru þorp þar sem íbú­ar eru frönsku­mæl­andi en íbú­ar ná­granna­þorps­ins þýsku­mæl­andi og eng­inn sam­gang­ur á milli þorp­anna tveggja. Þá tala marg­ir mál­lýsku hér­aðs­ins, sem er mjög þýsku­skot­in. Þessi ger­mönsku áhrif eru jafn­framt áber­andi í bygg­ing­ar­list, mat­ar­gerð og stað­ar­heit­um. Ekki síst kem­ur þetta síð­an fram í vín­rækt­inni, þar sem finna má sömu þrúg­ur og í Rín­ar­hér­uð­um Þýska­lands. Með vín­in eins og allt ann­að í Elsass á það þó við að þótt áhrif­in komi víða að, er út­kom­an ein­stök fyr­ir Elsass. Rín skil­ur Elsass frá Þýska­landi og Vos­ges-fjöll­in Elsass frá öðr­um svæð­um Frakk­lands. 

Vín­rækt hef­ur ver­ið stund­uð í Elsass frá því á tím­um Róm­verja, líkt og ann­ars stað­ar við Rín. Elsass-vín­in nutu mik­ill­ar virð­ing­ar á mið­öld­um og voru með­al þeirra eft­ir­sótt­ustu og dýr­ustu, sem fram­leidd voru í Evr­ópu. Stríð og far­sótt­ir næstu ald­irn­ar léku Elsass hins veg­ar grátt og það var ekki fyrr en að fyrri heims­styrj­öld­inni lok­inni að vín­rækt í Elsass fór að ná sér á strik á nýj­an leik.

Vín­rækt­ar­svæði Elsass eru í aust­ur­hlíð­um Vos­ges-fjalla og teygja sig yf­ir um hund­rað kíló­metra langt svæði. Mið­stöð vín­rækt­ar­inn­ar er kring­um bæ­ina In­gols­heim og Riquewi­hr, norð­ur af borg­inni Colm­ar. Ólíkt öðr­um hér­uð­um Frakk­lands eru Elsass-vín­in hins veg­ar ekki skil­greind eft­ir svæð­um fyrst og fremst held­ur eft­ir þeim þrúg­um, sem not­að­ar eru. Göf­ug­asta þrúga hér­aðs­ins er Riesl­ing, sem gef­ur af sér þykk, ilm- og bragð­mik­il vín í Elsass. Stíll­inn er hins veg­ar tölu­vert frá­brugð­inn þeim þýska. Elsass-vín­in eru þurr­ari, feit­ari og yf­ir­leitt áfeng­ari en þau þýsku.

Úr þrúg­unni Gewürztraminer eru fram­leidd bragð­mik­il og krydd­uð vín, sem henta vel með mat og þá ekki síst aust­ur­lensk­um. Muscat-vín­in eru þurr, létt og ein­kenn­ast af arómat­ísk­um ávaxta- og blóma­keim. Glas af Muscat er til­val­inn for­drykk­ur en vegna þess hve sér­stök þau eru geta Muscat-vín­in ráð­ið við mat sem er flest­um öðr­um vín­um of­viða, s.s. reykt­an fisk. Eitt besta mat­ar­vín­ið er hins veg­ar Tokay Pinot Gr­is, en það er þrúga sem hætt­ir aldrei að koma manni á óvart. Nafn­ið er þannig til kom­ið að sam­kvæmt þjóð­sög­un­um á þrúga þessi upp­runa­lega að hafa kom­ið til hér­aðs­ins frá Ung­verja­landi. Nú mega Elsass-bú­ar hins veg­ar ekki nota Tokay-nafn­ið leng­ur, þar sem Ung­verj­ar telja það minna um of á nafn fræg­asta víns ­þeirra, Toka­ji.

Tokay Pinot Gr­is-vín­in geta tek­ið á sig marg­ar mynd­ir og virð­ist vera til Tokay-vín fyr­ir hvert tæki­færi. Ein­hver at­hygl­is­verð­ustu vín Elsass eru fram­leidd úr Pinot Gr­is. Ein­föld vín sem ber að drekka ung og fersk eru Syl­vaner og Pinot Blanc og vín sem köll­uð eru Edelzwicker eru oft­ast ódýr neyslu­vín, blönd­uð úr tveim­ur þrúg­um eða fleiri.

Eina þrúg­an sem rauð­vín eru fram­leidd úr er Pinot No­ir og einnig eru fram­leidd rósa­vín úr henni. Þetta eru létt rauð­vín og þægi­leg en sum­ir fram­leið­end­ur eru farn­ir að gera til­raun­ir með geymslu í eik­artunn­um til að gefa vín­un­um ögn meiri þyngd.

Ár­um sam­an þurftu neyt­end­ur ekki að þekkja ann­að en þessi þrúgu­nöfn og finna svo ein­hverja fram­leið­end­ur er þeir treystu til að gera góð vín úr þeim.

Ár­ið 1984 var hins veg­ar tek­in upp í Elsass flokk­un á bestu vín­ekrum hér­aðs­ins – s.k. Grand Cru – og allt í einu varð hér­að­ið flókn­ara en áð­ur. Um fimm­tíu ekr­ur eru flokk­að­ar sem Grand Cru og má setja nafn þeirra á flösku­mið­ann. Að auki má setja ým­is nöfn á flösku­mið­ann þó að ekki sé um Grand Cru að ræða. Þetta telja marg­ir fram­leið­end­ur þver­sögn og neita að nýta sér þetta kerfi þó að þeir eigi ekr­ur á þess­um svæð­um.

Það er hins veg­ar aug­ljóst að hin­ar fjöl­breyttu að­stæð­ur – eða ter­ro­ir – Elsass bjóða upp á flokk­un af þessu tagi. Það er gíf­ur­leg­ur mun­ur á víni milli ekra og flokk­að­ar ekr­ur búa flest­ar yf­ir mikl­um per­sónu­leika. Á ekrum, sem flokk­að­ar eru sem Grand Cru má ein­ung­is rækta Riesl­ing, Gewürztraminer, Pinot Gr­is og Muscat hygg­ist menn nýta sér skil­grein­ing­una enda er lit­ið svo á í Elsass að þær séu æðri öðr­um þrúg­um, sem rækt­að­ar eru í hér­að­inu.

Alls falla inn­an við tíu pró­sent af vín­rækt­ar­svæði Elsass und­ir skil­grein­ing­una Grand Cru og eru Grand Cru-ekrurn­ar alls 50 tals­ins frá Steinklotz í norðri til Rangen í suðri. Rangen hef­ur raun­ar tölu­verða sér­stöðu, það er eina ekra Elsass þar sem jarð­veg­ur­inn er hraun­kennd­ur og eru vín það­an öfl­ug og sér­stæð. Einn bær, Thann, get­ur stát­að af því að all­ar ekr­ur í kring­um hann eru skil­greind­ar sem Grand Cru. Til dæm­is um þekkt­ar ekr­ur í Elsass má taka Schloss­berg, Vor­bo­urg, Mam­bo­urg, Brand og Kirchberg de Ri­beauvillé.

Í Elsass er einnig fram­leitt þurrt freyði­vín und­ir nafn­inu Cré­m­ant d’Alsace, með sömu að­ferð og í Champagne og þeg­ar vel ár­ar eru bú­in til dýr­leg sætvín und­ir skil­grein­ing­unni Vend­anges Tar­di­ves og Sé­lect­ion de Gra­ins Nobles. Vend­anges Tar­di­ves þýð­ir bók­staf­lega sein upp­skera og eru þau vín sjald­an eins sæt og Gra­ins Nobles, þar sem þau síð­ar­nefndu eru al­far­ið unn­in úr þrúg­um, sem eð­almygl­an bo­tryt­is hef­ur þurrk­að. Við fram­leiðslu á sætvín­um er ein­ung­is heim­ilt að nota þrúg­urn­ar Muscat, Riesl­ing, Gewürztraminer og Pinot Gr­is. Þessi vín henta ekki síst með gæsalif­ur (foie gras) frá Elsass en hún er tal­in ein­hver sú besta í Frakk­landi í harðri sam­keppni við gæsalif­ur frá Périgord í suð­vest­ur­hluta lands­ins.

 

 

Deila.