Madonna

Madonna við Rauðarárstíg er einn af þessum litlu reykvísku veitingastöðum sem lítið fyrir fer, lítið er rætt um en heldur áfram starfsemi sinni ár eftir ár. Á heimasíðu Madonnu kemur fram að hann hefur verið rekinn af sömu fjölskyldu frá árinu 1987. Andrúmsloftið er líka heimilislegt. Ítalskur vertinn tók kumpánlega á móti gestum sem greinilega voru fastagestir og átti þess á milli í háværum samræðum á ítölsku við starfsfólk í eldhúsi.
Yfirbragðið staðarins er svona Ítalíu-ítalskt, þ.e. í þeim anda sem veitingahúsið Ítalía hefur mótað. Skrautmunir og myndir á veggjum í löngum röðum, birtan takmörkuð, gestir sitja í básum með skrautlegu áklæði og glerplötur eru á borðplötum.

Matseðill var sömuleiðis í því sem kalla má norður-evrópskan Ítalíu-stíl af gamla skólanum. Mikið af pitsum með margvíslegu áleggi og greinilegt að hugmyndafluginu hefur stundum verið gefinn laus taumur. Pastaréttir flestir með einhvers konar rjómasósum og í forrétt hægt að fá snigla eða rækjukokkteil.

Við byrjuðum hins vegar á humarsúpu sem var hluti af seðli dagsins. Hún var þykk, hveitisúpa af gamla skólanum með rjómatoppi, töluverðu af humarkurli og miklu og ágætu humarbragði.

Pitsur voru hlaðnar osti og öðru meðlæti. Pepperoni á pepperoni-pitsu hefði mátt vera meira í magni og meira afgerandi í bragði en nóg var hins vegar af sveppum og grænni papriku.

Lasagna var sérstakt. Stór og mikill lasagna-hlunkur sem synti um í miklu magni af tómata-ostasósu í skálinni. Þungur og allt að því óárennilegur réttur. Salat til hliðar; iceberg, rifnar gulrætur og gúrka með ágætri dressingu.

Með súpu og lasagna var boðið upp á hvítlauksbrauð, löðrandi í smjöri.

Við þurftum að bíða töluvert lengi eftir þjónustu, ætli það hafi ekki tekið um tíu til fimmtán mínútur frá því við settumst niður þar til þjónninn gaf sig að okkur aftur sem er nokkuð langur tími miðað við það að þetta er lítill staður sem var langt í frá fullsetinn þetta kvöld. Þegar hann kom var hins vegar ekki yfir neinu að kvarta, þjónustan heimilisleg og vinaleg í þeim anda sem búast má við á stað sem þessum.

Madonna er staður sem er svolítið út úr hringiðunni, eins konar hverfisfjölskyldustaður sem heldur sínu striki ár eftir ár óháð tískusveiflum og virðist eiga nóg af fastakúnnum sem kunna að meta þá stefnu.

 

 

 

Deila.