Ó Sushi

Það hefði mátt ætla að á fáum stöðunum í heiminum væru betri aðstæður til að reka góðan sushi-stað en á Íslandi, að minnsta kosti hvað hráefnið varðar. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að starfrækja slíka staði eða jafnvel fjöldaframleiðslu á sushi með misgóðum árangri Stundum hefur tekist mjög vel til og smátt og smátt hefur líka tekist að venja landann á að meta þessa fíngerðu japönsku framsetningu á fiski og hrísgrjónum.

Ósushi í Iðuhúsinu Lækjargötu er hins vegar fyrsti staðurinn sem býður Íslendingum upp á sushi á færibandi í bókstaflegri merkingu. Í Japan eru slíkir staðir kallaðir kaiten-sushi eða kuru kuru sushi og njóta mikillar hylli. Hugmyndin er einföld. Gestir sitja við eins konar barborð sem getur verið með margvíslegu lagi og renna sushi-bitarnir framhjá á færibandi. Þegar maður sér eitthvað sem hugurinn girnist er diskurinn gripinn.

Fyrsti staðurinn af þessu tagi opnaði í Osaka árið 1958. Það var veitingamaður að nafni Yoshihaki Shiraishi sem fékk þessa hugmynd er hann heimsótti bjórverksmiðju og sá flöskurnar renna á færibandi í átöppunarvélina. Shiraishi hafði átt í erfiðleikum með að fullmanna veitingastaðinn og sá þarna fína lausn á því hvernig hægt væri að komast af með færri starfsmenn. Shiraishi reyndi síðar fyrir sér með róbóta-sushi þar sem vélmenni afgreiddu diskana en sú hugmynd náði af einhverjum óskiljanlegum ástæðum aldrei flugi. Færibanda-sushi-ið sló hins vegar í gegn þegar hugmyndin var notuð á heimssýningunni í Osaka árið 1970.

Þetta er bæði fljótleg og praktísk nálgun við að borða sushi. Það þarf ekki að panta neitt og það þarf heldur ekki að bíða (nema einhverjir aðrir grípi alltaf þá bita sem maður hefur augastað á á undan manni.

Og það sem meira er – þetta getur bara verið afskaplega skemmtileg og góð tilbreyting frá hinni hefðbundnu máltíð.

Þar sem sushi er ferskvara skiptir miklu að ekki sé bætt meiru á færibandið en umferð gesta um staðinn þolir. Enginn vill fá bita sem hefur farið hring eftir hring á færibandinu í nokkra klukkutíma.

Ósushi er ágæti útgáfu af þessu japanska konsepti sem hefur rutt sér til rúm í öllum helstu stórborgum Vesturlanda á síðustu árum, en að sjálfsögðu telst Reykjavík til þeirra. Færibandið er hæfilega stórt og stundum jafnvel of lítið – það getur verið erfitt að fá sæti í hádeginu.

Gott er að byrja á miso-súpu áður en maður ræðst á diskana sem eru í misjöfnum litum allt eftir því hvað bitarnir á þeim kosta. Algengt verð á disk er 250-350 krónur og yfirleit einn eða tveir bitar á diski. Á meðan setið er við færibandið má svo fylgjast með því hvernig nýjir bitar eru búnir til og settir af stað í sína fyrstu og hinstu för.

Þetta er ágætlega vandað sushi sem boðið er upp á – þéttir og góðir hrísgrjónakoddar sem molna ekki í sundur þegar prjónunum er læst um þá og hrámetið ferskt og bragðbott, lax, hvítfiskur margskonar, humar og túnfiskur auk þess sem þarna er líka í boði bitar með kjöti og eggjaköku og jafnvel eftirréttakökubitar.

 

 

Ósushi
Iðuhúsinu
Lækjargötu 2b

 

Deila.