Argentína steikhús

Það eru nokkrir veitingastaðir orðnir að eins konar fasta í íslensku veitingahúsalífi.  Steikhúsið Argentína við Barónsstíg er óneitanlega í þeim flokki. Argentína er einhvern veginn alltaf söm við sig og alltaf jafnvinsæl meðal gesta.

Síðast þegar að ég fjallaði um Argentínu fyrir nokkrum árum var niðurstaðan sú að Argentína ætti eiginlega að heita Steikhús Íslands, svo rótgróið væri þetta veitingahús orðið í þjóðarvitundinni. Heimsókn á Argentínu hefst strax á Barónsstígnum þar sem ilmurinn af nautakjöti á grillinu berst út á götu með loftræstingunni. Eftir að hafa gengið í gegnum undirgöngin inn að kunnuglegu anddyrinu er gestum boðið að setjast við barinn þar sem hægt er að ylja sér við arineldinn.

Argentína er steikhús og um þau gilda sérstök lögmál, þangað fara flestir gestir í einum ákveðnum tilgangi – að fá góða steik!

Forréttir eru meira forleikur að kjötinu en forleikurinn skiptir auðvitað sem slíkur máli. Ristuð risahörpuskel með furuhnetupesto var mild – allt ágætlega útfært en ekki eftirminnilegt. Þegar kemur að Carpaccio er Argentína hins vegar í essinu sínu, hvort sem það er klassískt með parmesan, klettasalati og olíu eða þá með bragðmiklu wasabi og aioli sem gjörbreytir réttinum.

Steikhús eru hins vegar auðvitað dæmd af steikunum og þar brillerar Argentína. Einhver besta steik – ef ekki sú besta – sem hægt er að fá á landinu er Porterhousesteik Argentínu. Þetta er þykk og mikil steik sem dugar fyrir tvo hið minnsta, jafnvel þótt um tvo hrausta karlmenn sé að ræða. Steikin var fullkomlega elduð í tveimur heimsóknum, mitt á milli rare og medium-rare eins og beðið var um. Skorið meðfram beininu fyrir grillun til að tryggja að hún eldist sem jafnast.

Meðlætið hefur ekki tekið miklum breytingum í gegnum árin. Bökuð kartafla með mjög góðri kaldri hvítlaukssósu og frekar daufu chimicurri. Hiins vegar var okkur einnig boðið upp á að reyna steikina með truffluoliu og reyndist hún falla vel að steikinni – jafnvel betur en hinar sósurnar tvær.

Sígildasti eftirrétturinner Valrhona-súkkulaðitertan, hún var traust og mjúk með góðum blautum súkkulaðikjarna og ís. Pavlova var biti af mjúkum marengs með berjasósu. Í báðum tilvikum traustir en ekki stórkostlegir réttir.

Þjónusta á Argentínu er yfirleitt góð og það er passað vel upp á gesti frá því að þeir mæta og þangað til þeir fara enda er það – ásamt steikunum – líklega helsta ástæða þess hversu fastan sess Argentína á í hugum þjóðarinnar.

Vínlistinn hefur löngum verið nokkuð metnaðarfullur á Argentínu enda á fátt betur saman en rautt steik og rautt vín. Kreppan hefur vissulega sett mark sitt á seðilinn og það er ekki eins mikið um flott vín og fyrir kreppu. Það er þó hægt að fá nokkur mjög fín vín og bestu kaupin – þegar horft er á muninn á „búðarverði“ og „veitingahúsaverði“ sýndist mér vera í vínum rétt yfir tíu þúsund kallinn. Þar er hægt að gera fantagóð kaup – t.d. Lehmann Mentor og Ciacci Brunello.

 

Deila.