Bændamarkaður í borg

Frú Lauga er heitið á nýrri verslun eða öllu heldur markaði sem opnaði við Laugalæk nú í vikunni. Bændamarkaðurinn er hugarfóstur hjónanna  Arnars Bjarnasonar og Rakelar Halldórsdóttur sem um nokkurra ára skeið hafa rekið fyrirtækið Vín og mat og sérhæft sig í innflutningi hágæða vín frá minni framleiðendum, aðallega á Ítalíu en einnig Frakklandi, Portúgal og Ástralíu svo dæmi séu tekin.

Það var stöðugur straumur af fólki þegar Vínótekið leit við um helgina og öll fjölskyldan upptekin við afgreiðslustörf.

“Hugmyndin vaknaði þegar við bjuggum í Boston í Bandaríkjunum og á Ítalíu. Þar var að finna bændamarkaði með ferskum afurðum þótt vissulega væru þeir ólíkir í Bandaríkjunum og á Ítalíu. Við fórum að velta þessu fyrir okkur strax og við fluttum heim en mátum það sem svo að aðstæður væru ekki fyrir hendi. Það breyttist hins vegar eftir hrun,” segja Arnar og Rakel.

Þau byrjuðu að leita að húsnæði í ársbyrjun og höfðu strax augastað á húsnæðinu við Laugalæk þar sem áður var rekin sjoppa en það var hins vegar komið í útleigu þegar eftir því var falast. Þau skoðuðu húsnæði víðs vegar um borgina en voru ekki búin að festa neitt þegar verslunarrýmið við Laugalæk losnaði á ný.

Glæsilegt grænmeti og kryddjurtir er fyrirferðarmikið á markaðnum þessa dagana enda sá árstími þegar íslenska uppskeran fer að nálgast hámarkið. Þetta er hins vegar langt í frá að vera grænmetismarkaður einvörðungu. Í Laugu er til dæmis hægt að fá korngrís frá Laxamýri og íslenska önd og á næstu dögum verður boðið upp á kjöt af alikálf og kalkún með öðrum hætti en neytendur hafa hingað til átt kost á. Einnig er í hillum að finna sjávarafurðir á borð við kúfskel og bleikju frá Hala í Suðursveit.

“Það eru margir framleiðendur sem vita að þeir framleiða einstaklega góða vöru og vilja gjarnan fá möguleika á að koma henni á framfæri undir sínu merki í stað þess að hún hverfi í hafið. Þetta er eitthvað sem vonandi á bara eftir að aukast og það eru margir í startholunum með margvíslegar afurðir. Nú er grænmetið í hámarki en í vetur getur vel verið að við bjóðum upp á t.d. sláturafurðir og villibráð,” segja Arnar og Rakel.

Stefna þeirra er að geta jafnvel þróað einhverjar afurðir í samstarfi við framleiðendur og síðan verður alltaf einhver innflutningur. Nú er til dæmis í boði lífræn ólívuolía frá Provence í Frakklandi og hágæða balsamik-edik frá Ítalíu.

Frú Lauga verður til að byrja með opin kl. 12-18 miðvikudaga og fimmtudaga, kl. 12-19 á föstudögum og kl. 10-18 á laugardögum. “Við sjáum svo til hvert framhaldið verður,” segja þau Arnar og Rakel.

Deila.