Sauðabrie

Margir af þekktustu ostum heims eru framleiddir úr geitamjólk eða sauðamjólk og má nefna Roquefort, Ricotta, Pecorino, Feta og Manchego sem dæmi um nokkra sauðaosta. Það er því fagnaðarefni að fyrir nokkru hófst framleiðsla á ostum úr sauðamjólk og geitamjólk hér á landi. Það er Mjólkurbúið í Búðardal sem hefur verið frumkvöðull í þessari framleiðslu en samstarfsverkefni um þessa framleiðslu hófst fyrir nokkrum árum. Sævar Hjaltason hjá mjólkurbúinu segir að í upphafi hafi mjólkin verið notuð í framleiðslu á Feta og þá verið þynnt til helminga með kúamjólk.

Árið 2007 hafi menn byrjað að reyna framleiðslu osta þar sem eingöngu var notuð mjólk úr kindum og geitum. „Þetta lukkaðist afburðavel og neytendur hafa tekið vel í þetta,“ segir Sævar. Í fyrstu voru ostarnir eingöngu seldir í Ostabúðinni en smám saman hafa þeir verið fáanlegir í fleiri sérbúðum. Verðið á ostunum er nokkuð hátt miðað við aðra osta og segir Sævar það óhjákvæmilegt. Þarna sé um að ræða mjög lítið magn og mikil vinna á bak við. Geitamjólkin kemur frá Jóhönnu Þorvaldsdóttur á Háafelli í Hvítársíðu en kindamjólkin hefur komið af býlum í Dölunum, Mýrum og Kelduhverfi svo dæmi séu nefnd. „Að meðaltali höfum við fengið kindamjólk frá 5-8 bæjum en þeir gætu orðið allt að tíu í ár,“ segir Sævar.

Vínótekið bragðaði á Sauðabrie sem það fann í ostaborðinu í Hagkaup í Kringlunni og líkaði vel. Hann er mildur og mjúkari í sér en hinn hefðbundni Brie. Frábær með t.d. Riesling frá Alsace eða góðum Sauvignon Blanc.

Deila.