Þorskur í suður-indverskum stíl

Þessi uppskrift er í anda sjávarþorpa Suður-Indlands, fiskurinn eldaður í þykku og bragðmiklu kókos-curry.

 • 2-3 flök af þorski eða ýsu
 • 1 sítróna
 • 1 laukur, saxaður
 • 3 sm engiferrót, flysjuð og rifin
 • 1-2 belgir af grænum chili, fræhreinsaðir og saxaðir
 • 1 dós kókósmjólk
 • 2 msk kókosmjöl
 • 1/2 tsk túrmerik
 • 1/2 tsk cumin
 • 6-8 curry-lauf eða lúka af söxuðum kóríander
 • salt og pipar

Skerið flökin í bita, setjið á fat og pressið safann úr sítrónunni yfir. Saltið og piprið og látið standa í um hálftíma.

Steikið flökin í olíu um 2-3 mínútur á hvorri hlið, takið af pönnunni og geymið. Bætið olíu á pönnuna og steikið laukinn ásamt rifnu engiferrótinni, chili-piparnum, túrmerik-kryddinu og curry-laufunum þar til hann er orðinn mjúkur.

Hellið kókosmjólkinni á pönnuna ásamt cumin og kókosmjölinu og látið malla á vægum hita í um tíu mínútur eða þar til sósan fer að þykkna. Setjið þá fiskbitana aftur út í og sjóðið í sósunni þar til þeir hafa hitnað í gegn, rúma mínútu eða svo.

Setjið fiskbitana á fat og hellið sósunni yfir. Berið fram með Basmati-grjónum.

Létt og ferskt hvítvín með t.d. Jacob’s Creek Three Vines eða Peter Lehmann Chardonnay.

Deila.