Chateau Teyssier 2006

Bretinn Jonathan Maltus festi kaup á Chateau Teyssier í St. Emilion í Bordeaux fyrir fimmtán árum og hefur á þeim árum sem síðan eru liðin skipað sér í hóp þekktustu svokallaðra „garagistes“ eða bílskúrskalla en sú lýsing hefur verið notuð um agnarsmá víngerðarhús sem framleiða fágæt og rándýr vín. Flest þeirra eru í Pomerol næsta bæ við St. Emilion en sum eins og Le Dome frá Maltus er að finna í St. Emilion.

Chateau Teyssier er hins vegar grunnurinn að veldi Maltusar og raunar heimili hans líka. Þetta er ekki „bílskúrsvín“ heldur hefðbundið Chateau-vín sem flokkast sem St. Emilion Grand Cru.

Chateau Teyssier 2006 er ungt og þarf nokkurn tíma til að opna sig. Ég mæli með því að víninu sé umhellt, eða að minnsta kosti opnað um klukkustund áður en það er borið fram. Dökkt með djúpri kirsuberja-, sólberja- og apótekaralakkrísangan. Kröftugt í munni með ágengum tannínum, aflmikið og eikin kemur greinilega fram. Þetta er hörkuvín og flott núna en mun líkt og önnur góð Bordeaux-vín dýpka og vaxa með aldrinum. Má geyma í 5-10 ár.

Flott með hreindýri eða annarri villibráð og önd.

3.599 krónur.

 

Deila.