Fiskifélagið

Það var að mati margra að bera í bakkafullan lækinn að ætla að opna veitingahús í kjallara í Kvosinni þar sem áhersla væri lögð á fusion-matargerð. Þar voru þegar til staðar tveir slíkir staðir, Sjávarkjallarinn og Fiskmarkaðurinn, þegar Fiskifélagið opnaði dyr sínar í sumar fyrir gestum. Ljóst var að staðurinn yrði að marka sér sérstöðu á þessari sillu matargerðarinnar.

Það hefur sem betur fer tekist. Þótt auðvitað megi alltaf finna einhverja samnefnara þegar vel er leitað nær Fiskifélagið bæði hvað andrúmsloft og matargerð varðar að skera sig úr og marka sér sína eigin stöðu.

Hann er til húsa á Grófartorgi í gamla Zimsenhúsinu, sem hafði verið tekið af upprunalegum stað sínum við Hafnarstræti árið 2006 og fært út á Granda. Þar var það gert upp áður en það var flutt á sinn núverandi stað á Grófartorgi við Vesturgötu.

Staðurinn er dimmur og mynda kertaljós og önnur lýsing dulúðuga stemmningu, ekki síst í kringum barinn þar sem gul birtan streymir upp í gegnum borðplötuna en á bak við barinn eru gluggar úr gömlu Fríkirkjunni í Hafnarfirði sem fengið hafa ný hýbýli. Lítil smáatriði hér og þar vekja forvitni manns, í inngangi er hægt að skrifa athugasemdir á miða og hengja upp á vegg og í fremri sal er til sölu ýmis konar forvitnilegur varningur í hillu.

Borðin dreifast víða um húsakynninn en innst er að finna meginveitingasalinn þar sem borð og básar taka á móti gestum í dimmum salnum svartur steinn á gólfi og veggjum, stólar og ódúkuð borðin sömuleiðis svört.

Matseðlllin er undir áhrifum úr öllum heiminum og má segja að hver diskur geymi eitt þema, þar sem eitt land eða svæði og hráefni er í meginhlutverki.

Hver réttur er sinfonía ótrúlegustu hráefna og aðferða sem þulin eru upp þegar diskarnir koma á borðið og maður verður að hafa sig allan við til að muna hvað er hvað. Eiginlega ættu diskarnir að koma með einhvers konar leiðarvísi.

Það er við hæfi að byrja á Íslandi en þar er það rabarbari, sem skráður er sem lykilhráefni í humarréttinum, Humarbitarnir, fastir í sér og bragðmiklir og smjörsteiktar gulrótarræmur og gulrótarmauk gáfu fína vídd ásamt rabarbaramauki, sem var hins vegar á mörkum þess að vera of sætt fyrir minn smekk. Brennivínsfroða bragðdauf þótt greina mætti fjarlægan vott af cummin og bætti litlu við.

Grafinn lax frumleg og flott útfærsta á þessari klassík. Á speltbrauði með hleyptu eggi sér við hlið. Marineruð fennika og súrufroða og sinnepshlaup til að brjóta upp bragðið.

Túnfiskur var kenndur við Jaimica og súraldin, fiskurinn kaldur og ekki mjög spennandi sem slíkur, djúpsteikti linskelskrabbinn mun betri. Mauk á hliðunum skipti litlu máli.

Saltfiskurinn var hápunktur í einni máltíð, kenndur við Portúgal og Chorizo. Virkilega fallegt og þykkt þorskstykki, fullkomlega útvatnað og eldað. Með smjörmikilli kartöflumús, ólívum og bragðmiklum chorizo-pylsubitum. Djúpsteiktar saltfiskbollur með og paprika. Yndislegur réttur en vissulega svolítið ofhlaðinn, maður veit ekki hvar maður á að byrja og enda.

Í annarri máltíð var það hins vegar BBQ-steikin og Bandaríkin sem slógu í gegn. Á disknum grilluð folaldalund sem var svo meyr að það var nánast óþarft að tyggja hana, ofan á þykkri og smjörmikilli kartöflumús og rauðvínssósu. Samhliða þessu var komið með grillaða Ribeye-steik, franskar í poka og piparsósu í könnun. Ribeye-steikin var góð en folaldið átti vinninginn, franskarnar frábærar en piparsósunni alveg ofaukið, hefði þurft lengri eldunartíma.

Það er helst í eftirréttum sem maður hefur orðið fyrir vonbrigðum. Súkkulaðikaka með Kinder-eggi var fremur þurr og það átti líka við um bananaköku en ofan á henni var vanillustangarís sem var svo frosinn að enginn leið var að vinna á honum með þeim verkfærum sem gestum voru útveguð.

Það er mikið vandaverk að fara út í samsetningar af því tagi sem framreiddar eru á diskum Fiskifélagsins og lítið má bera út af til að útkoman verði farsakennd. Lárus Gunnar Jónsson er hins vegar með okkar færustu matreiðslumönnum og siglir yfirleitt lystilega í kringum þær hættur sem til staðar eru og skilar forvitnilegri og bragðgóðri útkomu. Hann hefur enda mikla reynslu af þessari tegund matreiðslu, var fyrsti matreiðslumeistari Sjávarkjallarans og sá sem kom þeim stað eftirminnilega á kortið á sínum tíma. Stundum er maturinn þó á ystu nöf, t.d. sushi með wasabiís.

Ég mæli með því að panta „heimsreisuna“ en þá gefst kostur á að bragða marga af þeim réttum sem í boði eru á seðlinum. Annars getur verið erfitt að ákveða sig. Verð hennar er 8.400 krónur á manninn.

Þjónusta hefur verið fín og fumlaus í þau skipti sem ég hef snætt á Fiskifélaginu og vínlistinn til fyrirmyndar hvað fjölbreytni varðar. Colonial Estate Emigre er dæmi um slíkt, skuggalega flottur Ástrali. Kannski ekki ódýrasta vínið á seðlinum en ekki dýrt fyrir 94 Parker-punkta-vín og fullkomið með folaldinu og Ribeye.

 

Fiskifélagið

Vesturgötu 2a, Grófartorg

Borðapantanir í síma 5525300

www.fiskfelagid.is

 

Deila.