Ciacci Piccolomini d Aragona 2006

Vínin Brunello di Montalcino eru með bestu vínum Ítalíu og kosta skildinginn þótt þau séu vissulega langt í frá jafndýr og mörg önnur vín, ekki síst ef miðað er við gæði en ekki nafn og orðstír.

Það getur hins vegar borgað sig að kaupa vín úr sömu þrúgu og frá sama svæði sem kemur ekki af alveg besta vínviðnum og bestu ekrunum. Svona rétt eins og bestu kaupin í Bordeaux-vínum eru oft „sécond“ vín bestu vínhúsanna. Í Montalcino eru þessi vín kölluð Rosso di Montalcino.

Ciacci Piccolomini d’Aragona 2006 er einmitt Rosso-vín sem er örlítið smækkuð mynd af Brunello. Þurrt og kröftugt með þroskuðum kirsuberjum og plómum, beisku, dökku súkkulaði og leðri með kaffiívafi. Vínið er skarpt og tannískt án en hefur þó mýktina og þykktina til að halda því aðgengilegu þrátt fyrir ungan aldur – sem er akkúrat það sem bestu vínin bjóða upp á fókus en jafnframt breidd – mikið um sig og kryddað.

Vín fyrir bestu og flóknustu pastaréttina, sem eins og við vitum er einhver besti maturinn sem hægt er að fá sem og aðrir ítalskir réttir þar sem tómatar gegna lykilhlutverki, t.d. ítalski kjúklingurinn okkar.

3.590 krónur. Mjög góð kaup.

 

Deila.