Brunchinn er sívinsæll

Orðið brunch er nánast ómögulegt að þýða með góðu móti. Það er sambland af ensku orðunum yfir morgunmat og hádegismat, breakfast and lunch, og flestar tilraunir til að þýða yfir á önnur tungumál hafa mistekist. Franska akademían, Academie Francaise, sem er málfarslögregla þeirra Frakka, gerði þó heiðarlega tilraun þegar hugtakið „le grand petit dejeuner“ var kynnt til sögunnar. Það hefur þó – merkilegt nokk – ekki náð að festa sig í sessi.

Þannig er það því svo að brunch hefur náð fótfestu í íslenskri orðanotkun, stundum í gervinu brönsj, og notið vaxandi vinsælda. Líkt og heitið gefur til kynna er þetta máltíð sem er mikil um sig og á að koma í stað tveggja máltíða.

Fyrirbærið eða öllu heldur hugtakið á líklega uppruna sinn að rekja til Bretlands einhvern tímann á nítjándu öld, þótt sögum beri ekki saman um nákvæmlega hvar og hvernig. Það var hins vegar í Bandaríkjunum sem brunchinn fór á flug. Hann naut mikilla vinsælda í Chicago á fjórða áratugnum þar sem efnaðir ferðalangar á leið yfir álfuna áðu þar yfir miðjan dag og fengu sér góða máltíð. Það var svo eftir stríð sem hann festi sig endanlega í sessi sem miðdegismáltíð á sunnudegi og veitingastaðir um öll Bandaríkin fóru að bjóða brunch.

Það gilda í raun engar sérstakar reglur um hvað felist í brunch. Yfirleitt eru þó að finna eitthvað sem maður tengir við morgunmat, s.s. pönnukökur, síróp, egg og beikon en einnig eru oftast þyngri kjöt- og fiskréttir í boði. Ákveðnir drykkir hafa svo þróast með svo sem hin klassíska Mimosa, þar sem kampavíni og appelsínusafa er blandað saman.

Hér á landi hefur brunch-inn notið vaxandi vinsælda og verið í boði víða um bæ. Ekki síst hefur verið vinsælt fyrir nokkrar kynslóðir að eiga gott sunnudagshádegi saman með þessum hætti. Nú í janúar reið svo sjálft Hótel Holt á vaðið og býður nú upp á brunch í fyrsta skipti í sögu sinni, í hádeginu á bæði laugar- og sunnudögum.

Friðgeir Ingi Eiríksson yfirmatreiðslumaður segir þessa hugmynd hafa blundað í sér lengi og markmiðið sé að bjóða fólki upp á góðan mat á viðráðanlegu verði. Þarna er blandað saman margvíslegum réttum og fá gestir í byrjun  pönnukökur með eggi og beikoni, hinn klassíska graflax holtsins og franska lauksúpu. Þá kemur grillspjót með naute-ribeye, lambalæri og svínalund, kartöflugratín og bearnaise og piparsósu. Loks koma svo Suzette-pönnukökur og Valrhona-súkkulaðikaka. Ekki nein lítil máltíð, enda ætlað að leysa tvær af hólmi.

Deila.