Eldvatnið veldur uppnámi

Það má segja að allt hafi orðið vitlaust í Færeyjum þegar Eldvatn, fyrsta færeyska vodkað, var kynnt til sögunnar á síðasta ári. Vinsældir þess urðu strax miklar en ekki síður hefur það ollið harðvítugum pólitískum deilum og hótunum um stjórnarslit.

Erling Eidesgaard, maðurinn á bak við Eldvatnið, hóf ferill sinn í allt öðrum geira. Hann lauk framhaldsnámi frá tækniháskólanum DTU í Danmörku þar sem hann sérhæfði sig í vöruhönnun og þróun. Að loknu námi starfaði hann í tvö ár sem verkfræðingur hjá Bang & Olufsen í Danmörku en sneri að því búnu aftur heim til Færeyja.

Þar keypti hann hlut í auglýsingastofu sem hann rak um skeið þar til að hann tók við stjórn nýs fjarskiptafyrirtækis er bar heitið EITT. Skömmu eftir að Vodafone keypti fyrirtækið fyrir þremur árum ákvað Erling að láta draum, sem hann hafði gengið með í maganum um árabil, verða að veruleika. Ásamt viðskiptafélaga sínum Mortan Mols Mortensen stofnaði hann fyrirtækið Dism.

Þeir Erling og Mortan tóku sín fyrstu skref í áfengisframleiðslu árið 2008 þegar þeir settu ákavítið Lívsins Vatn á markaðinn. Færeyingar eru miklir unnendur ákavítis og hvergi í heiminum er ákavítisneysla meiri miðað við höfðatölu. Það var hins vegar ekki fyrr en Lívsins Vatn leit dagsins ljós að Færeyingar gátu notið innlendrar framleiðslu.

Og í raun ekki alveg „innlendrar“. Færeyska áfengislöggjöfinn er gífurlega ströng og eiming áfengis er ólögleg í Færeyjum. Til að geta sett færeyskt ákavíti á markað reyndist því nauðsynlegt að fara til Danmerkur og var gerður samningur við eimingarhús á Búrgundarhólmi um framleiðslu á Lívsins Vatn.

„Það var eiginlega sú staðreynd að þetta er ólöglegt sem varð til þess að ég ákvað að kýla á það,“ segir Erling. „Það hafa margir velt upp hugmyndum um áfenga færeyska drykki í gegnum árin og ég hugsaði sem svo: Fjandinn hafi það, við framleiðum bara erlendis. Við byrjuðum með ákavítið í Danmörku en vildum hafa framleiðsluna nær okkur þegar að við fórum að undirbúa framleiðsluna á Eldvatni. Það var ekki síst vegna þess að fyrir okkur vakti allan tímann að nota færeyskt vatn við framleiðsluna.

Í því ljósi lá beinast við að horfa til annaðhvort Skotlands eða Íslands. Ég fór til beggja landa, kannaði aðstæður og ræddi við hugsanlega samstarfsaðila og niðurstaðan var sú að við tókum upp samstarf við Ölgerðina á Íslandi.“

Eldvatn er framleitt í verksmiðju Ölgerðarinnar í Borgarnesi þar sem Reyka-vodka hefur verið framleitt um árabil. Vatnið er hins vegar flutt sjóleiðina til Íslands frá Færeyjum.

Erling segir þetta vissulega verið flókið og dýrt, til dæmis hafi þurft leyfi bæði frá heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi og í Færeyjum. „Markmið okkar er hins vegar að framleiða færeyskt vodka og því verður ekki hjá þessu komist. Vatnið verður verður að vera færeyskt ölkelduvatn. Við notum vatn úr vatnsbólinu Fransakeldan, rétt fyrir utan Þórshöfn. Þetta vatnsból hefur verið notað um aldabil og dregur nafn sitt af því að þegar frönsk skip áðu í Færeyjum birgðu þau sig upp af vatni úr þessu vatnsbóli. Ég veit að Íslendingar telja sig eiga besta vatn í heimi. Færeyska vatnið er hins vegar alveg einstakt og ekki líkt nokkru öðru vatni sem ég hef bragðað. Það var því grundvallaratriði í okkar huga að nota það við framleiðsluna. Samstarfsaðilar okkar í Borgarnesi telja okkur hálf skrýtna fyrir vikið og skilja ekki af hverju við notum ekki íslenskt vatn. Þá værum við hins vegar ekki að framleiða færeyskt vodka lengur, þetta væri íslenskt vodka eins og Reyka.“

Og það verður að segjast eins og er að Eldvatn – þótt nafnið gefið annað í skyn – er einstaklega mjúkt, milt og þægilegt vodka, með allt að því sætum keim.

„Málið hefur vakið gríðarlega athygli og við höfum orðið varir við mikinn stuðning meðal almennings og stjórnmálamanna. Auðvitað höfum við líka eignast óvini úr röðum öfgamanna. Þetta er mikið tilfinningamál í Færeyjum og að mörgu leyti er deilan trúarlegs eðlis. Raunar hefur þetta gengið svo langt að einstaka stjórnmálamenn hafa hótað því að sprengja stjórnina ef frumvarpið nær fram að ganga.

Til að skilja áfengisumræðuna í Færeyjum verða menn að átta sig á því að trúarbrögð og stjórnmál eru miklu samtvinnaðri í Færeyjum en á Íslandi og Færeyingar eru mun heittrúaðri en Íslendingar. Það eru heittrúarmenn í öllum stjórnarflokkunum og líklegt að þeir muni koma í veg fyrir að frumvarpið nái í gegn. Þetta eru sömu öflin og berjast gegn hjónaböndum samkynhneigðra og fóstureyðingum. Það er margir sem segjast biðja fyrir mér í þeirri von að mér batni.“

Enn um sinn verður því Eldvatn eimað í Borgarnesi. Meginmarkaður þess er auðvitað í Færeyjum en einnig hefur Vífilfell unnið að því að koma því á markað á Íslandi og verið er að undirbúa markaðssetningu í Danmörku og á Grænlandi.

Deila.