Indverskur kjúklingur í möndlu-jógúrtsósu

Þessi indverski réttur kjúklingaréttur er mjúkur og mildur með margslunginni kryddsamsetningu. Ristuðu möndlurnar sem sáldrað er yfir í lokin eru svo punkturinn yfir i-ið.

 • 800 g kjúklingabringur eða (úrbeinuð) kjúklingalæri
 • 3 sm engiferbútur
 • 10 hvítlauksgeirar
 • 6 msk möndluflögur
 • 1 kanilstöng
 • 10 kardimommur
 • 5 negulnaglar
 • 2 lárviðarlauf
 • 2 tsk cummin krydd
 • 1 tsk Garam Masala
 • 2 laukar, mjög fínt saxaðir
 • 1/2 dós grísk jógúrt
 • 1 rjómapeli eða 2,5 dl matreiðslurjómi
 • 3 msk súltanínu-rúsínur

Setjið hvítlaukinn, engifer, 4 msk af möndlunum og 2 msk af vatni í matvinnsluvél og maukið.

Skerið kjúklingabringurnar í þrennt og brúnið í olíu á pönnu. Takið af pönnuninn og geymið.

Hitið kardimommur, lárviðarlauf, kanilstöng og negulnagla í olíunni í nokkrar sekúndur og bætið þá lauknum við og brúnið í nokkrar mínútur. Þá er maukinu úr matvinnsluvélinni bætt út á pönnuna ásamt cummin-kryddinu. Blandið maukinu vel saman við og látið malla í 2-3 mínútur. Þá er jógúrtinu smám saman bætt út á pönnuna, skeið fyrir skeið, og blandað vel saman við. Að því búnu eru kjúklingabitarnir og safinn sem hefur lekið úr þeim settir aftur á pönnuna og rjómanum bætt saman við. Setjið eina teskeið af salti út á ef vill. Látið malla undir loki á vægum hita í 20 mínútur. Bætið þá rúsínunum saman við, snúið kjúklingabitunum við á pönnunni og leyfið að malla áfram í um 10 mínútur. Bætið Garam Masala út á í lokinn.

Ristið síðustu 2 msk af möndluflögunum á smjörpappír í ofni og sáldrið yfir pönnuna áður en rétturinn er borinn fram.

Að sjálfsögðu basmati-grjón með, annaðhvort hrein eða þá þessi indversku kryddgrjón. Gott Naan-brauð er sömuleiðis ómissandi með.

Hvítvín hentar best með þessu, t.d. fersk og ávaxtarík vín á borð við Cono Sur Viognier eða Peter Lehmann Chardonnay.

Deila.