Japanskir dagar á 101

Japanska matargerðin verður í miðpunkti á veitingastaðnum 101 frá og með fimmtudegi til og með sunnudegi þegar japanski matreiðslumeistarinn Akiro Okada tekur völdin í eldhúsinu.

Okada, sem er giftur íslenskri konu, kemur frá japanska veitingstaðnum Etika í Kaupmannahöfn, sem er að finna á Ny östergade, steinsnar frá Kongens Nytorv. Etika er raunar útibú frá japansk-færeyska staðnum Etika í Þórshöfn, sem hefur komið eins og stormsveipur inn í veitingahúsalífið á Færeyjum.

Etika í Kaupmannahöfn er 100 manna staður og hefur notið gífurlegra vinsælda allt fra því að hann var opnaður. Hann er stofnaður af Jens Rahbek sem fyrir mörgum árum setti Sticks n’sushi staðina á laggirnar í Kaupmannahöfn og hefur komið að rekstri margra japanskra staða í Kaupmannahöfn, auk Etika í Þórshöfn.

Undanfarna daga hefur Okada verið að kanna hráefnisstöðuna á Íslandi og leita fyrir sér með hráefni en markmið hans er að nota íslensk hráefni í sem mestum mæli. Þegar er farið að bjóða upp á japanska rétti í hádeginu en frá og með fimmtudeginum verður fimm rétta japanskur seðill í boði auk þess sem hægt verður að panta einstaka rétti.

Ætlunin er að sýna breiddina í japönsku matargerðinni og þær mismunandi aðferðir og hráefnisnotkun sem einkenna það og því munu væntanlega kunnugleg hugtök á borð við sushi, yakitori, miso og tempura skjóta upp kollinum á seðlinum.

Okada gerir allt frá grunni enda myndi engum japönskum matreiðslumeistara detta í hug að bera fram sushi sem hefur verið látið standa í einhvern tíma. Hann hefur tekið ástfóstri við íslenska lúðu og lamb auk þess sem hann er búinn að finna rétta þaran í maki-sushi og með aðstoð matreiðslumeistaranna á 101 tókst meira að segja að útvega loðnuhrogn. Þótt þau séu framleidd á Íslandi eru þau öll flutt út og í fyrstu virtist eina leiðin til að fá þau vera að flytja þau inn á nýjan leik með tilheyrandi kostnaði

Deila.