Fusilli með papriku og steinselju

Þetta er rammítölsk sveitauppskrift þar sem flysjaðar paprikurnar gefa bragð og sætu. Í hinni upprunalegu ítölsku uppskrift er gert ráð fyrir alvöru Pancetta-beikoni en einnig er hægt að nota þykkasta og mildasta beikonið sem þið finnið.

  • 500 g Fusilli
  • 2 stórar, rauðar paprikur
  • 2 steinseljubúnt
  • 150 grömm beikon/pancetta
  • 4 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
  • Parmigiano-ostur
  • Smjör

Skerið paprikurnar í tvennt og hreinsið innan úr þeim fræin og hvítu æðarnar. Flysjið utan af þeim og skerið í mjóar ræmur. Skerið stönglana af steinseljunni. Best er að nota flatlaufa steinselju. Skerið beikonið í ræmur.

Hitið matskeið af smjöri á pönnu og mýkið hvítlaukinn á miðlungshita án þess að hann brúnist. Bætið steinseljunni út á pönnunna og saltið með grófu salti. Setjið beikonið út á og steikið í þrjár mínútur. Bætið nú paprikuræmunum á pönnuna og hækkið hitann. Stekið í allt að tíu mínútur eða þar til paprikan er orðin mjúk.

Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum, hellið vatninu frá og bætið út á pönnuna. Blandið vænni lúku af rifnum Parmigiano saman við og berið fram. Að sjálfsögðu er gott að hafa auka ost við borðið.

Kröftugt ítalskt rauðvín með, s.s. Brolio eða Chianti Barone Ricasoli

Deila.