Spaghetti með beikoni og tómötum

Einfaldleikinn er oft bestur, ekki síst þegar um ítalskar uppskriftir er að ræða. Í upprunalegu uppskriftinni er gert ráð fyrir pancetta, sem er svínasíða, ekki ósvipuð beikoni. Best er að nota eins þykkt beikon og þið finnið.

  • 500 g spaghetti, t.d. „Ítalía“
  • 150 g beikon, skorið í litla bita
  • 1 laukur saxaður
  • 4 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • 1 flaska tómatamauk
  • 1 tsk chiliflögur
  • ólívuolía
  • salt
  • Parmigiano ostur

Hitið olíu á pönnu eða í þykkbotna potti. Steikið beikonið á miðlungshita í 8-10 mínútur eða þar til að það byrjað að dökkna og verða stökkt. Bætið saxaða lauknum út í og steikið með beikoninu í um fimm mínútur eða þar til hann er orðinn mjúkur. Setjið þá chiliflögurnar og saxaða hvítlaukinn út í, hrærið aðeins og bætið síðan tóamatasósunni út í. Látið malla á miðlungshita í 10-15 mínútur eða þar til sósan er farin að þykkna.

Hitið spaghetti samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Best er að nota þykkt og vandað spaghetti.

Síið vatnið frá spaghettíinu. Haldið til haga um desilíter af soðvatninu. Smakkið á tómatasósunni og saltið ef þarf. Bætið 1-2 msk af góðri ólívuolíu út í og soðvatni ef hún er orðin mjög þykk. Blandið spaghettí saman við og berið strax fram með nýrifnum parmigiano-osti.

Gott Miðjarðarhafsrauðvín með t.d. hið spænska Piquito.

Deila.