Saltfiskur Barcelona

Það er endalaust hægt að leika sér með saltfiskinn og það sem meira er hann fellur unaðslega vel að rauðvínum og þá ekki síst spænskum Rioja-vínum. Best er að nota saltfisk sem er saltaður eins og Spánverjar vilja hafan en hann er hægt að kaupa frystan í betri stórmörkuðum. Þessi uppskrift er enda sótt beint til Katalóníu á Spáni.

 • 500 g þykkir saltfiskbitar
 • 1 dós kryddlegnar paprikusneiðar
 • 1 dós heilir tómatar
 • 2 dl hvítvín
 • 1 rauður chili, fræhreinsið og skreið í þunnar ræmur
 • 2 vorlaukar, skornir í ræmur
 • 1 búnt flatlaufa steinselja, söxuð
 • 1 búnt graslaukur, saxaður
 • 4 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 1 tsk kanil
 • 1 msk sykur
 • 2 lárviðarlauf
 • ólívuolía
 • salt og pipar

Hitið ofninn í 200 gráður.

Veltið saltfiskbitunum upp úr hveiti og steikið síðan í olíu á pönnu þar til að hann hefur tekið á sig gullinbrúnan lit. Setjið bitana í ofnfast fat. Bætið smá olíu aftur á pönnuna og steikið hvítlaukinn, chili-piparinn, kanil, graslauk og lárviðarlauf á vægum hita í 2-3 mínútur. Bætið þá við tómötunum, vorlauk, sykri og hvítvíni. Hækkið hitann aðeins og látið malla þar til að sósan fer að þykkna.

Setjið paprikusneiðarnar ofan á fiskinn í fatinu og hellið síðan sósunni af pönnunni yfir. Bætið smá ólívuolíu við og stráið steinseljunni yfir. Bakið í 15-20 mínútur.

Sáldrið meira af saxaðri steinselju yfir og berið fram með kartöflumús og góðu Rioja-víni.

 


Deila.