Þorskhnakki með byggottó

Íslenskt hráefni og ítalskar aðferðir eiga oft einstaklega vel saman. Hér eldum við íslenskan þorskhnakka, sem er eitthvað magnaðasta hráefni íslenskrar náttúru, með íslensku byggi, eldað á sama hátt og ítalskt risotto.

Bygottó

3 dl íslenskt bygg
1 laukur, saxaður
1 gulrót söxuð í litla teninga
2-3 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
1,5 l kjúklingasoð (sjóðandi vatn og 1 tsk Oscar kjúklingakraftur)
1/2 steinseljubúnt, fínsaxað
2 dl nýrifinn Parmesan-ostur
ólívuolía

Hitið olíuna á stórri pönnu. Mýkið lauk, gulrót og hvítlauk í olíunni. Bætið bygginu við og veltið um í olíunni í 2-3 mínútur. Haldið soðinu við suðustig í potti og bætið smám saman við, ausu og ausu í einu. Látið byggið malla í 45-50 mínútur eða þar til það er orðið mjúkt en enn með smá biti. Bætið steinseljunni og Parmesan-ostinum saman við og látið standa í nokkrar mínútur.

Þorskhnakki

600-700 g af þykku þorskhnakkastykki
salvía
olía
smjör
salt og pipar

Hitið ofninn í 200 gráður. Skerið hnakkastykkið í fjórar „steikur“. Hitið smjör og ólívuolíu saman á pönnu. Bætið salvíu (ferskri fínsaxaðri eða þurrkaðri) saman við. Steikið þorsksneiðarnar um eina mínútu á hverri hlið. Saltið og piprið. Látið pönnuna í ofninn í um 10 mínútur. Þorskhnakki er hráefni sem ber að meðhöndla eins og góðar steikur og það ber að varast að ofelda þær.

Setjið byggotó á disk, þá skammt af klettasalati og loks þorkssneiðina ofan á salatið. Hellið smá af hágæða ólívuolíu yfir þorskinn og berið strax fram.

Deila.