Það er endalaust hægt að leika sér með bollakökurnar. Hér er ein útgáfa fyrir páskana þar sem páskaegg leynast í grasinu.
Kökudeigið:
- 225 g ósaltað smjör, mjúkt
- 225 g sykur
- 225 g hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 1 tsk vanilludropar
- 4 egg
Kremið:
- 375 g flórsykur
- 225 g ósaltað smjör, mjúkt
- 1 tsk vanilludropar
- grænn matarlitur
- klípa af salti
- lítil súkkulaðiegg
Aðferð:
Hitið ofninn í 175 gráður
Setjið allt sem á að fara í kökudegið í skál og þeytið saman með handþeytara í um þrjár mínútur eða þar til deigið er orðið slétt og fínt.
Raðið múffuformum á bökunarplötu og skiptið deiginu á milli. Þetta er nóg í um 20 stórar bollakökur eða um 30 litlar.
Bakið í 20 mínútur. Takið út og leyfið að kólna.
Þeytið á meðan saman smjör, flórsykur, vanilludropa og salt með handþeytara þar til að kremið er orðið slétt og fínt. Bætið matarlitnum varlega saman við, nokkra dropa í einu þar til að þið hafið náð þeim lit sem þið viljið.
Smyrjið kreminu á kökurnar þegar þær hafa kólnað. Notið kremsprautu til að búa til litla „grastoppa“ úr kreminu. Leggið siðan lítil súkkulaðiegg í „grasið“ á hverri köku.