Lamb í granateplalegi

Þessi réttur á sér nokkra sögu. Hann var vinsælasti rétturinn á veitingahúsi David Narsais í Berkeley í Kaliforníu á áttunda áratug síðustu aldar. Narsai er af sýrlenskum ættum og hefur verið vel þekktur og vinsæll matreiðslumaður áratugum saman á San Francisco-svæðinu og m.a. eldað fyrir stórhljómsveitir á borð við Rolling Stones og meira að segja bresku konungsfjölskylduna þegar að hún var í heimsókn á þessum slóðum.

Þessi einfaldi og frumlegi réttur þar sem lambakjöt er marinerað í granateplasafa eða Pomegranate hét „Sýrlenskt lamb“ á matseðlinum og naut mikilla vinsælda.  Biðjið kjötborðið um að vinna lambahrygg í „kórónur“ þar sem rifin eru skilin eftir. Granateplasafi fæst í flestum stórmörkuðum, t.d. frá The Berry Company.

Fyrir fjóra þarf 6-700 g lambakórónur (ca 3)

Kryddlögur:

  • 4 hvítlauksgeirar
  • 1 vænn laukur
  • 1 msk basilkrydd
  • 2 dl granateplasafi (Pomegranate Juice)
  • 1 dl rauðvín
  • salt og pipar

Maukið öllu saman í matvinnsluvél. Setjið lambakórónurnar í fat og smyrjið kryddleginum vel utan á . Leyfið að liggja í kryddleginum í ísskáp í að minnsta kosti 6-8 klukkustundir. Helst yfir nótt.

Hitið ofninn í 200 gráður.

Takið kjötið úr ísskápnum og hreinsið marineringuna af kórónunum. Eldið í um 20 mínútur. Leyfið kjötinu að jafna sig í nokkrar mínútur og skerið síðan niður í sneiðar.

Berið t.d. fram með rjómaelduðu rótargrænmeti og kúrbít, sem er skorinn í bita, smjörsteiktur þar til hann er orðinn mjúkur og kryddaður með smá salti og vel af pipar.

Gott vín frá Cotes-du-Rhone með, t.d. frá E. Guigal eða Chapoutier.

 

 

Deila.