Grilluð stórlúða með gremolata

Stórlúða er fiskur sem hentar mjög vel til grillunar, ekki síst ef hún er skorin í þykkar og fínar sneiðar.  Hér er hún gerð með afbrigði af gremolata en það er kryddjurtamauk sem er nokkuð notað í matargerð Norður-Ítalíu. Við skiptum hins vegar út hvítlauknum sem alla jafna er í Gremolata fyrir kapers.

Gremolata

  • Börkur af einni sítrónu
  • Kúfuð matskeið af capers (skolið)
  • Lúka af steinselju
  • 1/2 dl ólívuolía
  • salt og pipar

Maukið saman í matvinnsluvél eða morteli.

Stórlúða

Gerið ráð fyrir um 150-200 g á mann. Penslið steikurnar með ólívuolíu. Saltið og piprið. Farið varlega með saltið þar sem það er líka salt í Gremolata-maukinu.

Hitið grillið og setjið steikurnar á þegar það er orðið sjóðandi heitt. Eldunartíminn fer eftir þykkt fiskbitanna en þykk lúðusteik getur þurft 4-5 mínútur á hvorri hlið. Þegar þið snúið bitunum við er gremolata-maukið sett ofan á hliðina sem búið er að elda og klárað að elda undir loki.

Berið fram með ofnbökuðum tómötum og sítrónum og fersku salati.

Gott ítalskt hvítvín smellpassar með, t.d. Terlan Terlaner Classico frá Suður-Týról.

Deila.