Bláberjakaka á hvolfi

Þessi bláberjakaka er svokölluð kaka á hvolfi. Hún er elduð í pönnu með karamelliseruðum sykurhjúp á botninum sem verður að stökkum og ljúffengum toppi þegar henni er snúið við.

Kökubotninn

2 dl hveiti

1 dl sykur

100 g marsipan

100 g smjör við stofuhita

3 egg

3 msk rifinn sítrónubörkur

1/4 tsk lyftiduft

1/4 tsk salt

Hjúpur

2 dl púðursykur

50 g smjör

3 dl fersk bláber

Aðferð:

Hitið ofninn í 180 gráður.

Kökuna er best að elda á þykkri steikarpönnu (gott er að nota non-stick) sem má fara inn í ofn. Hún þarf að vera um 20 sm í þvermál og með háar brúnir.

Hitið smjörið og púðursykurinn á pönnunni á miðlungshita. Hrærið vel í allan tímann eða þar til að blandan er farin að þykkna og freyða aðeins. Takið af hitanum og leyfið að kólna í um korter. Dreifið þá bláberjunum yfir sykurblönduna á pönnunni.

Blandið saman hveiti, sykri, salti og lyftidufti. Setjið marsipan, sítrónubörk og sykur í hrærivél og hrærið með hrærara í um eina mínútu. Bætið næst smjörinu við í nokkrum skömmtum út í hrærivélina. Næst eggjunum einu í einu og loks hveitiblöndunni. Hrærið áfram þar til deigið er orðið jafnt og fínt.

Hellið nú deiginu yfir bláberin á pönnunni og jafnið út með sleikju. Setjið í ofninn og bakið í um 45 mínútur.

Látið kökuna standa í 1-2 mínútur eftir að hún er komin út úr ofninum og skerið síðan meðfram kantinum á pönnunni með hnífi. Setjið kökudisk yfir pönnunna og snúið henni við.

Berið fram með berjum og þeyttum rjóma eða ís.

Gott desertvín er snilld með þessari köku.

 

 

 

Deila.