Spennandi Spánn

Vínframleiðsla á Spáni hefur verið að þróast hratt. Spánn var lengi vel í hópi íhaldssamari víngerðarlanda Evrópu og byggði að miklu leyti á gömlum klassíkerum á borð við sérrí og rauðvínum frá Rioja. Á undanförnum árum hefur allt hins vegar verið á fleygiferð á Spáni. Ný víngerðarsvæði spretta upp út um allt og þau gömlu hafa flest hver vaknað til lífsins svo um munar.

Að mörgu leyti minnir Spánn um margt á Nýja heiminn. Það er tilraunastarfsemi í gangi alls staðar og allt virðist mögulegt, bæði hvað varðar innihald og framsetningu.

Á vínsýningunni Fenavin, sem haldin er á tveggja ára fresti í borginni Ciudad Real suður af Madrid, var þessi þróun enn skýrari nú en fyrir tveimur árum. Á Fenavin er einvörðungu að finna spænsk vín og framleiðendur hvaðanæva af á Spáni kynna þar framleiðslu sína fyrir umheiminum.

Auðvitað er gamli íhaldssami Spánn til ennþá í einhverjum mæli, það eru hins vegar nýju vínin sem stela senunni og athyglinni.

Spánverjar hafa löngum verið þekktastir fyrir framleiðslu rauðvína en það hafa orðið gríðarlegar framfarir í hvítvínunum. Og það eru ekki hinar „alþjóðlegu“ þrúgur sem eiga þar sviðið heldur rammspænskar þrúgur sem allar hafa sinn karakter og sérkenni. Albarino er um flest fremst þeirra hún er helsta þrúga svæðisins Rias Baixas í Galisíu. Gífurlega arómatísk, skörp og heillandi þrúga. Vín úr Verdejo, mörg þeirra bestu koma frá Rueda, eru fersk og sýrumikið, kannski ekki svo ólík Sauvignon Blanc. Godello er létt þrúga frá Valdeorras í Galisíu og og Viura/Macabeo er mjög algeng á Mið-Spáni og í Rioja. Heillandi þegar best lætur. Parelada og Xarel-lo eru síðan dæmigerðar fyrir Katalóníu.

Spænsku vínhúsin eru að ná stöðugt betri tökum á hvítvínunum og það má fastlega búast við því að þau fari innan skamms að velgja t.d. Nýjaheimsvínunum undir uggum.

Þrátt fyrir þetta eru það hins vegar rauðvínin sem ráða ríkjum á Spáni. Og þau eru frábær í mörgum tilvikum. Þekktustu vínin koma auðvitað frá klassísku svæðunum Ribera del Duero og Rioja og síðan Priorat sem skaust upp á stjörnuhimininn á síðari hluta síðustu aldar. Og það eru enn spennandi hlutir að gerast á þessum svæðum. Þarna eru miklir peningar í víniðnaðinum sem notaðir eru til þróunar bæði á enn betri ofurvínum og enn betri ódýrum vínum. Stundum eiga þessi vín hins vegar til að skjóta yfir markið. Þau verða of þung og mikil, missa sjarmann. Þegar þau hitta í mark eru þau hins vegar frábær, hvort sem um er að ræða klassísk eða módern vín.

Það er hins vegar á spænsku hásléttunni, á svæðum á borð við Valdepenas, Castilla y Leon og La Mancha, þar sem megnið af spænsku rauðvínunum eru ræktuð. Lengi vel voru þetta svæði sem fyrst og fremst framleiddu fyrir rauðvínshaf ESB. Nú fjölgar stöðugt vínhúsum í hæsta gæðaflokki, framleiðendum á borð við Emilio Moro, er framleiða hrikalega mögnuð vín.

Raunar er sama hvert litið er. Jumilla, Alicante, Bierzo, Mencia og Toro. Eða þá Mentrida við borgina Toledo í miðju Spánar þar sem ótrúlega spennandi lítil vínhús á borð við Bodegas Canopy eru að brjóta blað í víngerðinni með þrúgum af gömlum Garnacha-vínvið og Syrah. Eftir að hafa smakkað vín þeirra Alfonso Chacon og Belarmíno Fernandez á Fenavin, en líka ótrúlega ódýr hágæðavín á borð við Evohé og Beso de Vino frá Celtibera, sannfærðist ég endanlega um að Spánn er líklega mest spennandi víngerðarland Evrópu í dag. Sköpunarkraftur, sköpunargleði í bland við forna hefð og rótgróna menningu.

Deila.