Kjötbollur að hætti Rómarbúa

Þessar ítölsku kjötbollur alla Romana eða að hætti Rómarbúa eru fullar af gómsætum kryddjurtum og fínar bæði með pasta eða gnocchi. Uppskriftin er fyrir 4-6.

Kjötbollur:

 • 500 g nautahakk
 • 500 g svínahakk
 • 1 dl mjólk
 • 3 brauðsneiðar, fínsaxað
 • 75-100 g ítölsk Prosciutto-hráskinka, skorin fínt
 • 2 egg, pískið létt saman með gaffli
 • 1 dl nýrifinn Parmesan-ostur
 • 1/2 lúka fersk steinselja, fínsöxuð
 • 1/2 lúka ferskt oreganó, fínsaxað
 • 1 lúka ferskt basil, fínsaxað
 • 5 hvítlauksrif, pressuð
 • 1 tsk Maldon-salt
 • 1 tsk nýmulinn svartur pipar

Sósan

 • 2 dósir niðursoðnirr tómatar (um 800 g samtals)
 • 1 stór laukur, fínsaxaður
 • 3 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
 • 1 lúka basil, fínsaxað

Blandið brauðmylsnunni og mjólkinni saman í lítilli skál. Látið standa í um 10 mínútur. Í annarri stórri skál er skinkunni, hakkinu, hvítlauknum, kryddjurtunum, eggjunum salti og pipar blandað vel saman. Bætið þá brauðinu og mjólkinni saman við.

Hnoðið í litlar bollur á stærð við golfkúlu. Gott er að nota ísskeið.

Hitið olíu á stórri pönnu og brúnið bollurnar vel á öllum hliðum, 5-8 mínútur. Takið bollurnar af pönnunni og geymið.

Bætið 2-3 msk olíu á pönnunna og mýkið laukinn á miðlungshita í rúmar fimm mínútur. Bætið þá hvítlauknum út á og mýkið með lauknum í mínútu til viðbótar. Þá er tómötunum bætt við á pönnuna. Maukið tómatana með sleif, saltið og piprið. Látið malla á vægum hita í um 20 mínútur. Bætið basil út á og setjið kjötbollurnar aftur út á pönnuna. Leyfið að malla áfram í 15-20 mínútur.

Berið fram með pasta,t.d. spaghetti eða tagliatelle og nýrifnum Parmesan. Einnig má nota gnocchi í stað pasta.

Gott ítalskt rauðvín passar auðvitað best með, gjarnan Toskana-vín, t.d. Montepulciano d’Abruzzo frá Caldora..

 

 

Deila.