Kolabrautin

Það verður ekki af Kolabrautinni tekið að umgjörðin utan um hana er á heimsmælikvarða. Þótt bygging Hörpunnar hafi verið umdeild er húsið ekkert annað en listaverk. Það vakti töluverða spennu þegar tilkynnt var á sínum tíma að hjónin Leifur Kolbeinsson og Jónína Kristjánsdóttir, áður veitingamenn á Primavera, og Jóhannes Stefánsson, oft kenndur við Múlakaffi, myndu taka að sér veitingarekstur í hinu nýja og glæsilega tónlistarhúsi.

Það er þó óneitanlega sorglegt að þetta skuli hafa orðið til þess að Primavera skuli hafa hætt rekstri. Það skarð verður seint fyllt þótt maður lifi í voninni.

Þegar upp er komið tekur á móti gestum kokkteilbar undir stjórn hins sænska Christian Hägg, sem er einn sá metnaðarfyllsti sem hér hefur verið starfræktur. Inn af barnum bíður síðan Kolabrautin sjálf.

Kolabrautin er í alla staði glæsilegur staður. Vissulega þó ekki hlýlegur, þarna eru gler, steypa og stál ríkjandi. Speglaloft setur svip á salinn og fjólublár renningur á gólfinu gefur lit. Eldhúsið er opið með löngum skenk og hægt að fylgjast með kokkum staðarins undirbúa máltíðirnar. Á miðju gólfi stendur voldugur viðarofn þar sem brauð og fleira er bakað.

Veitingasalurinn myndar L á suður- og vesturhlið hússins og útsýnið er magnað, ef frá er skilið framkvæmdasvæðið við hlið Hörpunnar, þar sem glæsihótel mun vonandi rísa einhvern tímann í framtíðinni. Útveggirnir eru glerveggir sem tryggir ekki einungis útsýni heldur gerir einnig að verkum að á sumarkvöldum eða þegar sól er lágt á lofti getur verið alveg óvitlaust að kippa með sér sólgleraugum.

Matargerðin á Kolabrautinni var upphaflega kynnt með þeim hætti að þarna yrði eldhús sem myndi byggja á íslensku hráefni en styðjast við hefðir sunnar úr Evrópu. Það skín í gegn í sumum réttum, sem eru eins konar blendingur af hinu nýja norræna eldhúsi og Miðjarðarhafseldhúsinu. Stundum finnst manni eldhúsið hins vegar nánast daðra við einskonar fusion-eldamennsku.

Yfirmatreiðslumeistari Kolabrautarinnar er Þráinn Freyr Vigfússon, sem áður starfaði í Grillinu. Hann hefur einnig hlotið titillinn matreiðslumaður ársins, hreppt annað sætið í keppninni um matreiðslumann Norðurlanda og var fulltrúi Íslands á Bocuse d’Or í upphafi árs.

Bleikja í forrétt var hrá, mjúk og feit, rauðlaukur með kryddleginn, skarpur og sætur i senn, agúrkur með aioli gáfu ferskan blæ og „belgísku“ þaradufti var stráð yfir. Á heildina litið mjög flottur réttur.

Gellur voru afbragð, raspsteiktar með sítrónu. Með þeim ostafyllt bragðmikid ravioli og smjörsteikt spinat. Einnig á disknum bakaðir brauðteningar, eða kannski öllu heldur gróf mylsna. Hér fannst manni konseptið ganga alveg upp, gellur að hætti Miðjarðarhafsins.

Þorskur kom í fallegu stykki, fiskurinn þéttur og fullkomlega eldaður. Gulrótarræmur er minntu á núðlur yfir, steiktar og bragðmiklar Með þessu sítrónusósa í ætt við hina grísku avgolemono.

Lambið kom í tvennu lagi, annars vegar „öxl“, hægelduð og karamelliseruð og hins vegar meyrt og létteldað file. Með kjötinu soð og dillolía ásamt jarðskokkamauki, ristuðum möndlum, steiktum vínberjum og dilli. Ansi margt á disknum en það var dillið sem gaf tóninn. Áferð hráefnanna ólík og samspilið flott, allt frá mjúkum, sætum berjunum og þykku maukinu yfir í stökkar jarðbundnar, möndlurnar. Kjötið auðvitað í aðalhlutverki og það hægeldaða bókstaflega valtaði yfir hitt.

Eftirréttir í tveimur heimsóknum voru áþekkir þótt ólíkir eftirréttir væru pantaðir. Þemað það sama. Gestir fá spjald á borðið fyrir framan sig og rétturinn er síðan mótaður á spjaldinu og köfnunarefni notað til að djúpfrysta ís og annað. Þetta er sjóv og svolítið sniðugt en sjálfir réttirnir voru ekki að heilla okkur upp úr skónum.

Matseðillinn er endurnýjaður ört, sem er fínt en maður stóð sig að því að sakna til dæmis tómata og basil, sem var réttur er smakkaður var í fyrstu heimsókninni, virkilega frumlegt og fínt tilbrigði við tvær klassískar ítalskar sósur.

Á heildina litið er Kolabrautin staður í hæsta gæðaflokki. Þjónustan hefur verið að slípast og var mun skilvirkari í fyrri heimsókn en þeirri siðari, matargerðin er framsækin og fín en er enn svolítið leitandi, staðurinn á eftir að skerpa betur á sínu konsepti. Vínlisti er ágætlega samsettur, hentar matnum vel og verð þolanleg. Borðbúnaður er fjölbreyttur, stundum fannst manni hann smella fullkomlega að matnum, í önnur skipti var maður ekki viss hvernig maður átti að athafna sig. Heildaryfirbragð er glæsilegt en stólar mættu vera þægilegri fyrir lengri máltíðir.

Staður sem bætir við og auðgar íslensku veitingahúsaflóruna.

 

Deila.