Döðlu- og gráðostatilbrigði við grísalund

Árum saman hefur döðlu- og gráðostur þótt afbragð með grísalundum og þekktar eru uppskriftir þar sem lundirnar eru fylltar með þessu góðgæti. Hér er tilbrigði við matreiðslu á grísalund þar sem búin er til döðlu- og gráðostasósa til að undirstrika þessa þekktu samsetningu með nýstárlegum og ögn austurlenskum hætti. Með þessu eru bornir fram sykraðir gulrótarstrimlar, steiktir kartöflubátar og ferskt salat.

Döðlu- og gráðostasósa

 • 15 ferskar döðlur
 • 2 sneiðar af gráðaosti
 • 3dl kókosmjólk
 • villibráðarkjötkraftur
 • salt og pipar

Döðlunar eru hreinsaðar og skornar smátt og settar í pott með 2dl af köldu vatni. Látið krauma og sjóða saman í dágóða stund uns döðlurnar hafa maukast vel. Bætið þá klípu af gráðosti saman við. Látið þetta blandast vel og hellið því næst 3dl af kókosmjólk útí pottinn, hrærið, og haldið áfram að láta krauma án þess að sjóða. Bætið við villibráðarkjötkrafti – 2 tsk í 2 dl af vatni – og bragðbætið sósuna að lokum með pipar og salti eftir smekk, jafnvel skvettu af koníaki ef það er við hendina.

 

 • 2 meðalstórar grísalundir
 • 5 skalottulaukar
 • svartur pipar
 • kumenfræ
 • chillípipar

Skerið lundirnar í bita, svona handarþykk stykki, þekið með plastfilmu og berjið vel með kjöthamri (eða krepptum hnefa!). Veltið síðan bitunum létt upp úr hveiti, kryddið með svörtum pipar, muldum kumenfræum og ögn af chillípipar. Hitið olíu og smjör á pönnu og svissið sharlottulaukana (sem síðan eru teknir til hliðar). Lundirnar eru síðan settar á snarpheita pönnuna. Brúnið vel á góðum hita á öllum hliðum í fáeinar mínútur og setjið síðan í 160 gráðu heitan ofn í 15 mín. Sáldrið sharlottalauknum yfir lundirnar áður en þær fara í ofninn. Bragðbætið endilega sósuna með soðinu í lokin og munið að láta kjötið jafna sig í amk tíu mínútur áður en það er borið fram.

Sykraðar gulrætur

 • 6 gulrætur
 • sykur
 • smjör

Skerið sex gulrætur í mjóar strimla. Hitið sykur á pönnu og bætið smjörklípu á pönnuna þegar sykurinn er í þann veginn að brúnast. Látið gulræturnar krauma í sykurleðjunni í nokkrar mínútur á vægum hita uns þær eru orðnar vel meyrar.

Með réttinum má gjarnan bera fram steikta kartöflubáta, eða sykurhúðaðar kartöflur, og ferskt salat.

Deila.