Frönsk jól – foie gras

Frakkar borða vissulega foie gras allt árið um kring en á jólunum er hún nánast ómissandi á veisluborðinu. Foie Gras er lifur úr gæs eða önd sem í flestum tilvikum er seld niðursoðin þótt í Frakklandi megi einnig fá hana ferska eða frosna.

Þegar keypt er niðursoðin foie gras þarf auðvitað fyrst að ákveða hvort að menn vilji gæs (oie) eða önd (canard). Gæsalifrin er mýkri en öndin yfirleitt kröftugri. Þá þarf að velja um hvers konar afurð maður vill. Ódýrasta útgáfan af foie gras – þótt hún sé vissulega ekki ódýr nema hlutfallslega – er eins konar kæfa þar sem lifrin er hökkuð niður. Besta lifrln er hins vegar þegar lifrin er seld heil (foie gras entier) eða í bútum úr heilli lifur. Þannig lifur er fáanleg frá Ried í Alsace, afbragðsframleiðanda en aðferðin sem notuð er í Alsace er nokkuð ólík þeirri sem algeng er í suðvestur-Frakklandi, þar sem einnig er mikil framleiðsla á foie gras. Andalifrin frá Ried er bökuð í kryddblöndu og geymist hún í nokkra daga eftir að dósin er opnuð.

Fæst hún m.a. í Búrinu í Nóatúni, Mosfellsbakarí, Sandholtsbakarí og Ostabúðinni á Skólavörðustíg.

Það er hægt að bera fram foie gras með ýmsum hætti. Það þarf hins vegar ekki að hafa mikið fyrir henni og best að leyfa henni að njóta sín sem mest upp á eigin spýtur. Gott er að hafa ristað brauð með og gróft sjávarsalt (Maldon eða fleur du sel) og nýmulinn pipar.  Þá er ágætt að hafa á diskinum stökkt salat með skarpri vinaigrette.

Vínin frá Alsace falla afskaplega vel að foie gras og þá sérstaklega vín úr þrúgunum Pinot Gris og Gewurztraminer. Eftir því sem vínin eru betri eiga þau betur við og ekki er leiðinlegt að bjóða upp á sætan vendanges tardives með foie gras.

 

Deila.