Nautalund Wellington

Nautalund Wellington eða Beef Wellington er afskaplega glæsilegur réttur sem sómar sér á hvaða veisluborði sem er. Og það er auðveldara að elda hann en flestir halda. Á frönsku heitir rétturinn Filet de Bouef en Croute enda myndu Frakkar ekki nefna rétt með sama nafni og hertoginn er bar sigurorð af Napóleon við Waterloo.

  • 1/2 nautalund
  • 300 g fínt saxaðir sveppir
  • 2 skalottulaukar, fínsaxaðir
  • 1 msk ferskt timjan
  • 1 dl hvítvín eða rauðvín
  • 1 pakkning ítölsk skinka.
  • smjördeig
  • 1 egg
  • salt og pipar

 

Takið nautalundina út úr ísskáp að minnsta kosti klukkustund áður en hún er elduð.

Foreldið lundina með því að brúna í olíu eða smjöri á pönnu.

Næst er búið til svokallað sveppa duxelle. Mýkið laukinn í smjöri á pönnu. Bætið söxuðu sveppunum og timjan saman við.  Þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir er víninu hellt út á og soðið algjörlega niður þannig að eftir situr þykk sveppablanda á pönnunni. Saltið og piprið.

Leyfið sveppablöndunni að kólna, það er mikilvægt áður en hún er sett á deigið. Fletjið smjördeigið út. Tilbúið smjördeig er yfirleitt  í nægjanlega stórum sneiðum til að rúma lundina.

Smyrjið sveppablöndunni á smjördeigið og raðið síðan skinkusneiðunum á hana. (Í sumum uppskriftum er foie gras notuð í stað skinku og einnig má sleppa skinkunni og leyfa sveppunum að njóta sín einum og sér.)

Leggið lundina á deigið og rúllið því upp. Setjið á plötu þannig að „brotið“ snúi niður. Lokið fyrir endana með því að þrýsta á með gaffli. Pískið eggið og penslið deigið. Skerið nokkrar ræmur í deigið þversum og gatið aðeins með gaffli.

Eldið í 200 gráðu heitum ofni þar til að deigið er orðið gullið og fallegt, 25-30 mínútur. Takið steikina út og leyfið að jafna sig í að minnsta kosti 5 mínútur áður en að hún er skorin.

Með þessu er gott að hafa rauðvínssósu eða sósu sem gerð er með því að leysa upp skófarnar á pönnunni sem kjötið var steikt á með rauðvíni eða púrtvíni. Bæta síðan sveppaduxelle (sem verður þá að halda smá til haga af),  skvettu af rauðvíni og og svolitlu nautasoði út á og sjóða niður.

Hér þarf gott og klassískt rauðvín með, t.d. Brio de Cantenac frá Margaux eða góðan Chianti Classico.

 

Deila.