Það er fastur liður um áramót að menn strengi fögur fyrirheit um framtíðina og oftar en ekki tengjast þau hollu mataræði og aukinni hreyfingu. Ekkert nema gott um það að segja.
Aðferðirnar sem menn nota eru hins vegar mismunandi enda hægt að fara margar leiðir. Nýstárleg leið er að taka upp steinaldarfæði eða Paleo en þar er leitast við því að setja saman fæðu sem talin er vera manninum eðlislæg og gera líkamanum gott.
Eins og ávallt þegar tekin er upp fæðustefna er sumt leyfilegt og annað ekki. Steinaldarmennirnir voru til dæmis ekki með búfé og því má ekki neyta mjólkurvara ætli menn að taka Paleo alla leið. Sama á við um ræktaðar kornvörur, hellisbúinn var ekki að yrkja akrana.
Hins vegar er leyfilegt að borða kjöt, fisk, hnetur, ávexti og rótargrænmeti svo dæmi séu nefnd.
Þeir sem reynt hafa láta vel af og ekki síst hefur þetta fæði verið vinsælt í kringum þá sem stunda tilteknar íþróttir af miklu kappi. Erfiðast reynist mörgum að mega ekki nota mjólkurvörur við morgunverðarborðið. Sumir sýna mikla hugmyndauðgi við samsetningu matseðilsins og einn „hellisbúi“ gaukaði að okkur þessari uppskrift að Paleo pizzu sem fylgir algjörlega forskrift Paleo þó svo að það sé dregið í efi að þetta hafi verið algeng fæða á steinöld. Botninn er úr muldum möndlum og í staðin fyrir ost er gerð sósa úr cashew-hnetum. Við lítum í gegnum fingur okkar með lyftiduftið.
Botn
- 100 gr möndlu mjöl (kaupa eða hakka sjálf)
- 1 egg
- 1 1/2 tsk ólívuolía
- 1/8 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk hvítlauksduft
- ½ tsk oreganó
Hrærið öllu saman í kúlu og þrýstið svo á bökunarpappír á plötu þannig að úr verði pizzubotn.
Sósa
- tómatar, helst vel þroskaðir
- hvítlaukur
- laukur
- óreganó (ferskt eða þurrkað)
- basil (ferskt eða þurrkað)
- salt
- pipar
- ólívuolía
- ögn af Chili
Sjóðið í potti og maukið saman.
Álegg
- Eðalbeikon (steikið)
- ólívur
- sveppir
- tómatur
- ferskt basil
- klettasalat
Cashewhnetusósa „rifinn ostur“
- 1 dl Cashew hnetur (leggja í bleyti í nokkra tíma)
- 1 msk graslaukur
- 1 hvítlauksrif
- salt
- vatn (t.d. 1 dl) eftir smekk
Hakkið hnetur í matvinnsluvél og setjið svo rest samanvið eftir smekk.
Bakið botninn í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur. Takið út, setjið á sósuna, næst áleggið og aftur inn í ofn í nokkrar mínútur. Pizzan tekin út aftur og loks er cashew-hnetusósan sett yfir.