Indverskur kjúklingur með kókos og tómötum

Þetta er bragðmikill indverskur kjúklingaréttur. Líkt og algengt er í indverska eldhúsinu er það margslungin kryddblanda sem myndar uppistöðuna og blandast hér saman við sósu úr tómötum og kókosmjólk.

 • 6-800 g kjúklingalundir eða úrbeinuð kjúklingalæri
 • 1 dós niðursoðnir tómatar
 • 1 dós (stór) kókosmjólk
 • 4-5 sm bútur engifer
 • 8 stórir hvítlauksgeirar
 • 1 laukur, saxaður
 • 1 msk karrílauf (fæst í Heilsuhúsinu)

Kryddblanda

 • 2 msk sesamfræ
 • 2 tsk fennel
 • 1 msk mulinn kóríander
 • 2 tsk cummin
 • 1 tsk turmerik
 • 2 tsk Garam Masala
 • 1 tsk chiliflögur
 • 1 tsk nýmulinn svartur pipar

Blandið kryddunum vel saman. Setjið í matvinnsluvél ásamt engifer, hvítlauk og 1 dl vatni. Maukið.

Hitið olíu á pönnu og mýkið laukinn í um tíu mínútur á miðlungshita eða þar til að hann fer að taka á sig brúnan lit. Bætið kryddblöndunni saman við og veltið um á pönnunni í um 5 mínútur.

Bætið kjúklingabitunum á pönnuna og brúnið í nokkrar mínútur. Þá er tómötunum, karrílaufunum og 2 dl af vatni bætt á pönnuna. Blandið vel saman og látið síðan malla í um 20-25 mínútur. Þá er kókosmjólkinni bætt saman við. Látið malla á vægum hita í um 20-30 mínútur í viðbót þar til að sósan er orðin þykk og fín. Þeim mun lengri tíma sem þið gefið sósunni, þeim mun betri verður hún.

Berið fram með hrísgrjónum og Naan-brauði. Einnig er gott að hafa blómkál og kartöflur að hætti Norður-Indverja með.

 

 

Deila.