Grillmarkaðurinn

Það er rétt um ár síðan að Grillmarkaðurinn opnaði dyr sínar og staðurinn hefur fest sig í sessi sem einn af vinsælustu veitingastöðum landsins. Staðsetningin gæti auðvitað ekki verið betri í nýbyggingunum á horni Lækjargötu og Austurstrætis sem voru reistar í kjölfar bruna árið 2007.

Uppbyggingin á þessum reit einkenndist af miklum metnaði og þó að það sé kannski ljótt að segja það þá eru byggingarnar sem leystu hinar gömlu af hólmi í allt öðrum klassa. Að mörgu leyti á það líka við um Grillmarkaðinn, öll hönnun staðarins og innréttingar einkennast af miklum metnaði og smekkvísi.

Grillmarkaðurinn sækir innblástur hingað og þangað. Þetta er ekki dæmigerður fusion-staður, meira staður sem endurspeglar það sem hefur verið að gerast á austurströnd Bandaríkjanna síðastliðin ár (t.d. mikil japönsk áhrif) auk þess að leggja meiri áherslu en sést hefur á að hampa uppruna íslenska hráefnisins. Skyr og ís frá Þorgrími á Erpsstöðum, nautakjötið frá Dodda á Hálsi í Kjós og lambakjötið frá Höllu og Guðmundi á Ytri-Fagradal. Jú, jú, auðvitað er þetta markaðssetning en þetta er markaðssetning á þeim forsendum sem að manni finnst að fleiri íslenskir veitingastaðir ættu að tileinka sér. Draga fram sérstöðuna og staðbundan framleiðslu.

Hráefnin eru mörg hver rammíslensk að upplagi en matargerðin yfirleitt langt í frá að vera það. Sem er bara fínt. Eins og svo margir aðrir staðir í dag er mikil áhersla á eins konar smökkunarmatseðil. Þar gætir ýmissa grasa og hefur manni fundist fyrri hlutinn sterkari en sá síðari. Sumir réttir hafa verið að festa sig í sessi s.s. djúpsteiktur (grænn) saltfiskur og (rauður) smokkfiskur, réttur sem er kannski forvitnilegri en hann er góður. Kjúklingavængir með heimagerðu hnetusmjöri eru frábærir að narta í og það sama má segja um grilluðu grísarifin, kröftug og fín kryddblanda gerir rifin að hreinustu unun að borða. Hrefnusteikin lungamjúk og laus við lýsisbragðið sem margir eiga æskuminningar um. Ribeye-steikin með sveppamaukinu og krullufrönskum er sömuleiðis snilld, þarna fær maður alvöru grillbragð á kjötið og það á líka við um Grillmarkaðsborgarann, sem er líklega eini borgarinn á landinu sem getur att kappi við Sirloin-borgarann á 101.

Réttirnir eru yfirleitt tiltölulega einfaldir, það er ekki verið að flækja þá með of mörgum brögðum eða flókinni framsetningu. Yfirleitt ganga þeir vel upp þótt stundum hafi maður fengið rétti sem að maður áttaði sig ekki alveg á hvernig hefðu sloppið í gegn.

En Grillmarkaðurinn er líka staður sem að fólk kemur á ekki bara matarins vegna heldur stemmningarinnar, og hún er alla jafna mjög góð, hvort sem er í hádeginu eða kvöldin. Oft er líka ágætt að ekkert gsm-samband er á neðri hæðinni.

Þjónustan er sæmilega skilvirk, stundum virkilega góð, stundum svolítið kaótísk. Vínlistinn er þokkalegur og svolítið ruglingslegur, það eru ágætis vín á stangli en hann mætti vera sterkari fyrir stað í þessum flokki. Þá hjálpar það ekki að góð vín á seðlinum virðast geymd í einhvers konar hitakompu og eru alltof heit þegar þau eru borin fram.

Á heildina litið er Grillmarkaðurinn afbragðsgóður stemmningsstaður og ágætur matstaður.

 

 

 

 

Deila.