Farro með lax og parmesan

Hér er blandað saman ítölskum og austurlenskum áhrifum enda falla þessir bragðheimar oft einstaklega vel saman. Farro er forn ítölsk korntegund sem enn er mikið notuð á Ítalíu. Farro má fá í Frú Laugu en einnig er hægt að nota Bankabygg.

 • 1 laxaflak, roðflett
 • 2 dl Farro
 • 1 búnt vorlaukur, skorinn í bita
 • 1 búnt steinselja, saxað
 • 4 sellerístönglar, skornir í litla bita
 • 4 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
 • safi úr 1 sítrónu
 • 2 msk sojasósa
 • 1 tsk Panang Curry
 • 50 g Parmesanostur, rifinn
 • ólívuolía
 • sesamolía

Sjóðið Farro á vægum hita í 6 dl af vatni í um 25 mínútur.  Kornin eiga að vera orðin mjúk en hafa smá bit undir tönn. Hellið frá afgangsvatni ef þarf. Geymið.

Blandið saman sítrónusafanum, sojasósu og Panann Curry.

Skerið laxaflakið í teninga. Hitið ólívuolíu á pönnu og steikið á miðlungshita í nokkrar mínútur.

Bætið steinselju, hvítlauk og sellerí út á pönnuna og blandið saman við laxinn.

Hellið sítrónu/sojablöndunni út á pönnuna ásamt um 1/2 dl af vatni, lækkið hitann og látið malla á vægum hita í um fimm mínútur.

Setjið vorlaukinn út á pönnuna og blandið vel saman. Hellið 1-2 tsk af sesamolíu út á.

Bætið nú farro saman við, hitið upp ef þarf, bætið síðan rifnum parmesanostinum saman við.

Berið strax fram.

Með þessu er tilvalið að hafa gott ítalskt hvítvín, t.d. hið sikileyska Valdibella Ariddu Grillo.

 

Deila.