Salat með confit andarlærum

Ef eitthvað er virkilega franskt þá er það Confit de Canard. Andalæri sem hafa verið hægelduð í andafitu og eru síðan yfirleitt soðin niður. Þegar þau eru síðan elduð á nýjan leik magnast bragðið upp.

Það er hægt að fá ekta franska, niðursoðna confit-önd í betri búðum, t.d. rákumst við á hana í þeirri frábæru búð Melabúðinni á dögunum.

Það er hægt að nota andarkjötið á marga vegu, s.s. í salat. Takið lærin úr dósinni og hreinsið kjötið af beinunum. Hitið  aðeins af andarfituni á pönnu og steikið kjötið ásamt 2 söxuðum laukum. Það er yfirleitt óþarft að salta en piprið vel.

Búið til salat með stökku salati, tómötum, ristuðum valhnetum, söxuðum lauk og skarpri vinaigrette-salatsósu.

Blandið  kjötinu og salati saman og berið fram með góðu frönsku rauðvíni – eða hvítvini. T.d. góðum Búrgundara.

Ath! Ekki henda andarfitunni sem verður afgangs. Geymið hana í frysti og notið til að elda úr. Það er til dæmis ekkert sem gerir kartöflur betri en að elda þær úr andafitu.

 

Deila.