Austurlenskt og franskt í London

London er ein af fáum borgum heims sem raunverulega stendur undir því að vera „heimsborg“. Ekki nóg með að enn eymi eftir af áhrifum breska heimsveldisins heldur er borgin ein helsta fjármálamiðstöð veraldar og þar að auki einhver vinsælasta ferðamannaborg heims. Íslendingar eru hrifnir af London ekki síður en aðrar þjóðir og líklega er engin önnur borg, nema þá hugsanlega Kaupmannahöfn, sem að við sækjum jafnmikið heim.

Veitingahúsalíf London er líflegt og fjölbreytt. Þar er hægt að finna veitingahús sem falla að hvaða smekk og buddu sem er. Sumir þessara staða koma og fara, aðrir festa sig í sessi og eru orðnir að eins konar stofnunum.

Hér eru fjórir veitingastaðir – tveir þekktir asískir og tveir minna þekktir franskir – sem við höfum nýlega heimsótt og mælum eindregið með:

Kínverska veitingahúsið Hakkasan sem upphaflega opnaði í Hanway Place árið 2001 er alltaf jafnvinsælt Hakkasan-staðirnir eru nú reyndar orðnirtveir en nýlega opnaði annar í Mayfair. Þótt nýi staðurinn þyki „flottari“ er upprunalegi staðurinn hins vegar málið. Hann er í lítilli hliðargötu upp af Oxford Street og þegar gengið er niður stigann í kjallarann stígur maður inn í austurlenska veröld. Staðurinn er mjög stór, yfirleitt stútfullur og líflegur. Kokteilbarinn er troðinn og salur hólfaður niður í nokkur rými þar sem setið er tiltölulega þröngt.  Þrátt fyrir stærðina og fjöldan var þjónustan skilvirk og vinaleg og maturinn skilaði sér hratt og vel á borðið. Matargerðin er nútímaleg kínversk með vestrænum og stundum jafnvel japönskum áhrifum. Réttirnir ágætlega útilátnir, flott samsettir og bragðmiklir. Við vorum hrifin af jasmín-reyktum kjúkling og stökkri önd.

Annar „sígildur“ austurlenskur staður er japanska veitingahúsið Nobu. Þó að ávallt spretti upp nýjir og spennandi japanskir veitingastaðir stendur Nobu fyrir sínu.  Það eru um 30 ár liðin frá því að Nobu Matsuhisa opnaði fyrsta Nobu-staðinn í New York í samvinnu við leikarann Robert de Niro. Staðirnir eru nú orðnir ansi margir en þeir í New York og London eru enn kjölfestan. Vissulega er Nobu ekki lengur einn eftirsóttasti staður Lundúna, sem er ágætt. Maturinn er jafngóður en það er auðveldara að fá borð. Staðsetningin er einstök á Milleninum-hótelinu við Park Lane með frábært útsýni yfir Park Lane, það er að segja ef þú snýrð ekki baki í gluggana. Innréttingarnar eru í japönskum mínímalísma (eiginlega með smá skandinavískum blæ) með áberandi ljósum við og svörtum stólum og sófum meðfram veggjum. Matargerðin er sömuleiðis knöpp, óaðfinnanlega framsett og samsett. Stórkostlegt sushi og tempura. Omakase-smakkseðillinn á 80 pund á kvöldin gefur góða yfirsýn yfir matseðilinn. Maður er mjög sáttur að lokum án þess þó að nokkur einn réttur hafi verið „ógleymanlegur“. Andrúmsloftið er létt, afslappað og þjónustan fullkominn.

Shepherds Market er eins og lítið þorp í miðri Mayfair á milli Piccadilly og Curzon Street. Þar er að finna nokkur lítil, hugguleg veitingahús og er Le Boudin Blanc eitt hið besta. Þetta er eins og látlaus franskur sveitastaður og rammfranskur matseðillinn býður upp á hluti eins og foie gras, snigla í steinseljusmjöri, andarbringur og nautalund með béarnaise. Þetta eru allt klassíkerar úr franska sveitaeldhúsinu og vinalegt starfsfólkið er upp til hópa franskt. Það á líka við um kokkinn sem áður var yfirmatreiðslumeistari á einu virtasta veitingahúsi London – Le Gavroche. Vínlistinn býður upp á marga góða kosti á fínu verði, bæði frá Bordeaux sem Suður-Frakklandi.

Le Deuxieme við Drury Lane í Covent Garden á það sameiginlegt með Boudin Blanc að vera lítill franskur staður þar sem fyrrum yfirkokkur á einum af „stóru“ stöðunum (The Ivy) stjórnar eldhúsinu. Andrúmsloftið er hins vegar ólíkt. Deuxieme er stílhreinn og módern staður, hvítir veggir, hvítír stólar, hvítir dúkar. Matargerðin er frönsk í grunninn en með ítölsku ívafi og breskum hráefnum. Við föngum óaðfinnanlegan skötusel, lamb og kálf – og þarna er líka hægt að fá ribeye með béarnaise. Virkilega góður staður, nálægt leikhúsunum sem ekki er óhóflega dýr.

Deila.