Hannes Boy Café

Hannes Boy Café er nafnið á veitingastað sem opnaði fyrir um tveimur árum við smábátahöfnina á Siglufirði. Raunar er veitingahúsið einungis hluti af umfangsmiklum veitingarekstri sem komið hefur verið fyrir í húsunum, sem áður hýstu m.a. saltfiskverkun. Þau hafa nú verið gerð upp með afar smekklegum hætti og máluð í sterkum gulum, rauðum og bláum lit.

Auk Hannes Boy er þarna að finna kaffihúsið Rauðku, sem einnig býður upp á margvíslega rétti yfir daginn, og stóra og mikla veitingasali þar sem hægt er að halda veislur, tónleika eða koma saman með hópa. Allt er þetta með miklum ólíkindum miðað við stærð bæjarfélagsins enda veglegri og glæsilegri rými en hægt er að finna í mun stærri samfélögum.

Það verður hins vegar að skoða þetta í samhengi við aðra uppbyggingu á Siglufirði en veitingareksturinn við höfnina eru einungis hluti af stórhuga áformum athafnamannsins Róbert Guðfinssonar um uppbyggingu á Siglufirði. Alls er verið að fjárfesta fyrir um þrjá milljarða og mun á næstu tveimur árum rísa glæsihótel við höfnina auk þess sem ráðist verður í framkvæmdir við golfvöllinn og skíðalyftan endurnýjuð. Þá ætlar lyfjafyrirtækið Genis, sem Róbert veitir forstöðu, að reisa lyfjaverksmiðju í gömlu húsnæði bátasmiðjunnar við höfnina.

Þessar miklu framkvæmdir hafa nú þegar breytt ásýnd Siglufjarðar til muna og verða eflaust ásamt t.d. Síldarminjasafni, Þjóðlagasetri og Héðinsfjarðargöngum til að gjörbylta atvinnu- og mannlífii á Siglufirði á næstu árum. Siglufjörður hefur ávallt verið fallegur bær að heimsækja. Nú er hann hins vegar ekki lengur „úr leið“ og ótrúlega margt þangað að sækja fyrir ferðamenn.

En snúum okkur aftur að Hannes Boy. Nafnið er óvenjulegt fyrir veitingastað en staðurinn er nefndur eftir þekktum karakter úr siglfirsku bæjarlifi, sjóara sem setti svip sinn á bæinn og smábátahöfnina og var svolítið mikið fyrir sopann framan af ævi. Hann var barngóður og í góðum samskiptum við krakkana í bænum og sendi þá gjarnan eftir blandi fyrir sig. Róbert Guðfinnsson segir að hann hafi ungur ákveðið að ef hann myndi einhvern tímann eignast skip þá myndi hann nefna það eftir Hannesi. Raunar hafi nú bátur verið nefndur eftir honum en honum hafi þótt einsýnt að veitingastaðurinn myndi heita í höfuðið á þessum mikla karakter. Tréstytta af Hannesi er á efri hæð staðarins og vakir hann yfir veitingasalnum.

Elín Þorsteinsdóttir innanhúsarkitekt hannaði staðinn og þar er að finna margt sem minnir á síldartímann. Stólar eru úr tunnustöfum og skipslúgur notaðar sem myndarammar.

Það er þó ekki síld á matseðlinum, að minnsta kosti ekki í tveimur heimsóknum okkar, en sjávarfangið er þó vissulega áberandi. Einhver vinsælasti rétturinn á seðli dagsins er til dæmis klassískur rækjukokteill. Við fengum líka ágætis ceviche, lime-marineraðan fisk með kóríander, þó lime-safinn hefði mátt vera meira áberandi, en ekki bara liggjandi á botni krukkunnar.

Fiskur dagsins var fullkomlega eldaður hlýri með rótargrænmeti sem átti vel við. Fiskurinn léttsteiktur og mjúkur. Saltfiskur var stórt og glæsilegt hnakkastykki, vel útvatnað, á beði úr kartöflumús og með langelduðum tómötum.

Lambafile var sömuleiðis stórt og mikið stykki, vel hangið og meyrt, með bragðmikilli, rjómalagaðri sveppasósu og bakaðri kartöflu ásamt grænmetisstrimlum.

Allir þeir réttir sem við fengum áttu tvennt sameiginlegt – þeir voru mjög vel útilátnir og góðir. Sumir voru á mörkum þess að vera yfirhlaðnir, það hefði vel mátt einfalda aðeins meðlætið, ekki síst með fiskréttunum, til að draga enn betur fram frábært hráefnið, en bæði fiskur og kjöt voru í hæsta gæðaflokki.

Vínlisti er mjög vel samsettur, þarna eru mörg virkilega góð bæði rauðvín og hvítvín (þarna má finna fínan Chablis, vín frá Ribera del Duero, St-Emilion, Sauvignong Blanc frá Nýja-Sjálandi svo dæmi séu nefnd) og það sem meira er þau eru á frábæru verði miðað við það sem gengur og gerist.

Þjónusta er mjög vinaleg og kurteis en það mætti aðeins skerpa samhæfinguna betur, ekki síst þegar mikið er að gera í veitingasalnum.

Á heildina litið getur maður ekki annað en tekið ofan fyrir þeim mikla metnaði sem þarna er sýndur alveg niður í minnstu smáatriði. Við gengum afskaplega sátt út af Hannesi Boy í bæði skiptin og hann fær fjórðu stjörnuna fyrir metnað og þor.

Skráðu þig á póstlistann okkar með því að smella hér og fáðu reglulegt fréttabréf með nýjustu vínunum, uppskriftunum og veitingahúsunum.

 

Deila.