Grísalund fyllt með rósmarín og feta

Rósmarín á við svo margt og grísalund er svo auðvelt að para við flest. Það ætti því ekki að koma á óvart að þessi blanda er ljúffeng og bráðnaður fetaosturinn fullkomnar þetta.

  • 1 grísalund 5-600 g
  • 1/3 fetakubbur
  • 3 msk saxað ferskt rósmarín
  • 3 hvítlauksgeirar
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Skerið lundina í „butterfly“. Skerið fyrst niður lundina miðja og síðan út til hliðar báðum megin. Fletjið út og berjið hana aðeins til með kjöthamri (setjið plastfilmu eða álpappír yfir).

Saxið rósmarín og pressið hvítlaukinn. Blandið saman við 2 msk af ólífuolíu í skál saltið og piprið. Farið varlega með saltið, það er töluvert af því í ostinum.

Dreifið blöndunni yfir útfletta lundina og síðan niðurskornum, þunnum sneiðum af fetaosti eftir henni endilangri. Lokið lundinni og festið með tannstönglum eða matargarni.

Hitið olíu á pönnu og brúnið lundina allan hringinn i pönnu sem má setja inn í ofn. Eftir 3-4 fjórar á mínútu er pannan sett inn í 200 gráðu heitan ofn. Eldið í um 20 mínútur, takið út og leyfið kjötinu að standa í nokkrar mínútur áður en að þið sneiðið það niður.

Berið fram með t.d. rósmarínkartöflum eða hrísgrjónum og góðu salati. Með þessu gott, mjúkt rauðvín á borð við hið spænska Lan Reserva.

Deila.